„Við megum vera yfirvegaðri í ákveðnum stöðum sem komu upp í leiknum. Það kom fyrir að við unnum yfirtölu en köstuðum boltanum frá okkur, nokkuð sem leikmenn í okkar klassa eiga ekki að gera. Í leik með mjög fáum uppstilltum sóknum þá verðum við að leika enn meiri yfirvegun en áður og nýta hverja og eina mjög vel,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik og íþróttamaður ársins 2023 spurður hvaða lærdóm landsliðið dragi af viðureigninni við Serba í gær á Evrópumótinu í handknattleik.
„Eftir að maður horfði á leikinn þá sá maður að frammistaðan var ekki eins slæm og maður hélt. Fyrri hálfleikur bar þess keim að um fyrsta leik á stórmóti væri að ræða. Í síðari hálfleik fóru ýmis smærri atriði að hafa meiri áhrif á leikinn,“ sagði Gísli Þorgeir sem býr sig undir að mæta svipuðum andstæðingum á morgun þegar íslenska landsliðið mætir Svartfellingum.
„Svartfellingar eru sterkir eins og öll lið frá gömlu Júgóslavíu. Leikurinn verður okkur alls ekki auðveldur á morgun en ég er sannfærður um að við munum leika betur en í gær,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í dag.
Lengri hljóðritaða útgáfu af viðtalinu er að finna hér fyrir neðan.