Um tíu leikmenn kvennalandsliðsins hafa ekki geta beitt sér sem skildi í æfingabúðum landsliðsins síðustu daga. Mikið álag undanfarnar vikur og mánuði hefur tekið sinn toll. Arnar Pétursson landsliðsþjálfari segir að skoða verði ofan í kjölinn hvað veldur. Hann telur engu að síður að æfingavikan hafi skilað árangri þótt allra sterkasti hópurinn hafi ekki getað tekið þátt eins að var stefnt. Æfingavikan, sem tekur enda í dag, er einn liður í undirbúningi fyrir viðureignir gegn ísraelska landsliðinu í umspilsleikjum um sæti á HM 2025 sem fara fram hér á landi 9. og 10. apríl.
Hvernig getum við brugðist við?
„Þessi vika skilar ef til vill ekki sama árangri og við ætluðum okkur. Tíu til ellefu leikmenn hefur vantað á æfingarnar. Það er eitthvað sem við verðum að skoða í framhaldinu. Hvað það er sem veldur og hvernig við getum brugðist við til þess að svipuð staða endurtaki sig ekki. Þetta er ekki nógu gott,“ segir Arnar í samtali við handbolta.is.
„Við verðum að skoða þetta í samhengi við að landsliðið hefur tekið þátt í tveimur stórmótum í röð. Það hefur þýtt breytta uppsetningu á deildinni og aukið álagið á leikmenn. Það er greinilega að hafa áhrif og kosta okkur þessar viku,“ segir Arnar ennfremur.
Undirbúningur og umgjörð
Á móti kemur að til þess að taka framförum er e.t.v. þörf á meira álagi. „Vissulega helst þetta í hendur. Við verðum að skoða hvernig getum við brugðist við með betri undirbúningi og umgjörðinni sem við vinnum eftir.“
Til að hlaupa í skarðið kallaði Arnar í nokkra leikmenn sem hafa litla sem enga reynslu af A-landsliðinu sem vonandi verður einn liður í að auka á breiddina í leikmannhópi landsliðsins.
„Við eigum góðan hóp ungra og efnilegra handknattleikskvenna sem vegna þeirrar stöðu sem er uppi hefur fengið tækifæri fyrr inn en við ætluðum okkur.“
Hefja æfingar fyrr
Arnar reiknar ekki með öðru en að flestar ef ekki allar þær sem eru á meiðslalistanum verði klárar í slaginn eftir mánuð þegar kemur að leikjunum við Ísrael í HM-umspilinu.
„Deildin klárast hér heima 3. apríl og við munum koma saman með þann hóp leikmanna sem leikur í deildinni hér heima föstudaginn 4. apríl. Við fáum nokkra aukadaga til undirbúnings. Síðan koma leikmenn að utan strax upp úr helginni. Leikirnir verða síðan á miðvikudag og fimmtudag hér heima, 9. og 10. apríl,“ segir Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik.
Lengra viðtal er við Arnar í myndskeiði ofar í þessari grein.