Talsverð umræða hefur víða skapast vegna þess mikla munar sem er á milli margra landsliða sem nú taka þátt í heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik sem stendur yfir á Spáni. Allt upp í 40 marka munur hefur sést í leikjum og margir telja að sú ákvörðun að fjölga þátttökuþjóðum á HM úr 24 í 32 hafi orðið til að gera illt verra í þeim efnum. Lakari landsliðum hafi fjölgað meira en góðu hófi gegnir og enn fleiri leikir hafi orðið ójafnari.
Þórir Hergeirsson þjálfari Evrópumeistara Noregs segir að vissulega sé erfitt að búa sig undir leiki við andstæðinga sem eru mikið lakari. Menn verði hinsvegar að sýna þessar stöðu skilning. Með því að fjölga keppnisliðum á stórmótum sé verið að freista þess að auka úrbreiðslu og áhuga fyrir íþróttinni. Koma handknattleik á framfæri í fleiri ríkjum utan Evrópu sem hafi borið höfuð og herðar yfir flesta aðra, bæði hvað varðar getu og áhuga.
„Við erum hluti af hinu alþjóðalega handknattleikssamfélagi. Innan þess er vilji til þess að auka áhuga og útbreiðslu á handknattleik um allan heim. Við erum sammála um að við viljum fjölga þeim þjóðum þar sem handknattleikur er stundaður. Þetta er eitt skref í þá átt. Þess vegna verðum við að sýna skilning og þolinmæði meðan sú vinna stendur yfir og sætta okkur við að munurinn geti verið mikill meðan að þessu er unnið,“ segir Þórir Hergeirsson þjálfari Evrópumeistara Noregs í handknattleik kvenna í samtali við norska fjölmiðla á Spáni.
Norska landsliðið, sem vann Kasakstan með 28 marka mun í fyrrakvöld, mætir landsliði Íran í kvöld og má reikna með öðrum stórsigri þeirra norsku gegn þeim írönsku.