- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verðum að vera á tánum frá upphafi

U20 ára landsliðið sem tekur þátt í HM í Skopje. Mynd/Gurrý
- Auglýsing -

„Angólaliðið er Afríkumeistari og verður krefjandi andstæðingur. Við höfum farið yfir nokkra leiki með liðinu síðustu daga og höfum reynt að búa okkur eins vel undir viðureignina og kostur er á,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari 20 ára landsliðs kvenna í handknattleik þegar handbolti.is heyrði í honum hljóðið yfir morgunkaffinu hvar hann var að undirbúa síðasta fund með leikmönnum fyrir fyrsta leikinn á heimsmeistaramótinu sem hófst í Skopje í Norður Makedóníu í morgun. Fyrsti andstæðingur Íslands verður landslið Angóla. Flautað verður til leiks klukkan 14 og verður bæði streymi og textalýsing frá leiknum á handbolti.is.

Ísland tekur nú þátt í HM20 ára landsliða kvenna í handknattleik í þriðja sinn. Fyrst vann Íslands sér keppnisrétt á HM 1999. Í annað sinn var Ísland með árið 2018. 

HMU20 kvenna – leikjadagskrá, riðlakeppni, úrslit, staðan

„Við erum að fara í hörkuleik. Angólaliðið hefur leikið bæði 6/0 vörn og 3/2/1 vörn í síðustu leikjum. Við verðum að vera á tánum frá upphafi. Auk þess keyrir liðið mjög ákaft á hraðaupphlaupum sem þýðir að við verðum að skila okkur mjög vel til baka í vörnina.
Fyrst og fremst verðum við að huga að okkur sjálfum og eigin frammistöðu. Einbeitingin verður að liggja þar. Ef það tekst getum við náð hagstæðum úrslitum,“ sagði Ágúst Þór ennfremur.

Fjögur lið eru í hverjum af átta riðlum heimsmeistaramótsins. Auk Angóla eru landslið Norður Makedóníu og Bandaríkjanna með íslenska liðinu í riðli. Verður leikið gegn þeim á föstudag og laugardag.

Sigur er markmiðið

„Við höfum verið í Skopje í nærri viku við æfingar og keppni til undirbúnings fyrir HM. Á leikdegi ríkir fyrst og frems tilhlökkun í hópnum yfir að hefja keppni á mótinu. Markmið dagsins er að ná í sigur en til þess þurfum við alvöru frammistöðu. Það hefur verið fínn taktur í leik okkar upp á síðkastið sem skilar sér vonandi áfram í leikinn í dag,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson sem þjálfar íslenska liðið ásamt Árna Stefáni Guðjónssyni.

(Myndir fyrir neðan er frá léttri æfingu í morgun og árbít í kjölfarið).


Leikmenn íslenska liðsins vöknuðu snemma í morgun og tóku létta æfingu utandyra við hótelið í sumarhitanum í Skopje. Eftir það var snæddur árbítur. Stuttur fundur verður með leikmönnum og þjálfurum um hádegið þar sem rifjað verður upp það helsta sem áhersla verður lögð á í leiknum við Angóla.

„Ég vona að stelpurnar verði ferskar og klárar í slaginn þegar á hólminn verður komið,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson um leið og hann drakk dreggjarnar úr kaffibollanum.

Yngri landslið.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -