„Alsírbúar leika ekki hinn hefðbundna evrópska handknattleik. Þeir eru svolítið villtir. Við verðum að gíra okkur inn á þá línu frá upphafi,“ segir Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, um næsta andstæðing landsliðsins, leikmenn Alsír. Leikur liðanna fer fram í kvöld klukkan 19.30. Leikið verður á sama stað og síðast í New Capital Sports Hall í Kaíró.
Alsír er þegar komið með tvö stig í F-riðli eftir sigur á nágrönnum sínum frá Marokkó á fimmtudaginn, 24:23, þar sem Alsírbúar voru sjö mörkum undir í hálfleik, 15:8. Þeir gáfust hinsvegar ekki upp þótt á móti blési og höfðu sigur að lokum sem var fagnað afar hressilega.
„Varnarleikur Alsírbúa er oft svolítið villtur og þess vegna á að vera auðvelt að mynda yfirtölu í sóknarleiknum. Það er nokkuð sem við verðum að nýta okkur vel,“ sagði Arnór Þór og rifjar upp að síðast þegar lið Íslands og Alsír mættust á HM hafi íslenska liðið lent í miklum vandræðum.
Sex mörkum undir í Katar
„Við vorum 7:1 undir eftir tíu mínútna leik. Okkur tókst að snúa taflinu við en þetta sýnir hvað getur gerst ef menn eru ekki á tánum,“ sagði Arnór Þór en fyrrgreindur leikur sem hann talar um var á HM í Katar fyrir sex árum og lauk með sigri Íslands, 32:24, þrátt fyrir þessa slæmu byrjun.
Alsír tekur nú þátt í HM í fimmtánda sinn, þar af í fyrsta skipti frá árinu 2015. Liðið varð í þriðja sæti í síðustu Afríkukeppni, næst á eftir Egyptalandi og Túnis sem báru höfuð og herðar yfir önnur lið mótsins.
„Þeir geta verið skemmtilega villtir í sínum leik og það er svolítið gaman að horfa á Alsírbúa leika handknattleik. Leikur þeirra er öðruvísi sem verður til þess að útkoman verður stundum sérstök. Þeir fengu til dæmis þrjú eða fjögur rauð spjöld í leiknum við Marokkó,“ segir fyrirliðinn.
„Við eigum möguleika á að nýta hraða okkar í hraðaupphlaupum. Þegar stillt er upp í hefðbundinn sóknarleik þá verðum við að leggja áherslu á að vinna maður gegn manni, fá mann í okkur, klippa, fá yfirtöluna og leita uppi hornamennina. Við megum alls ekki fara á taugum þótt þeir mæti okkur framarlega í þrír, þrír vörn, frekar að vera rólegir og leita lausna. Við verðum að vera klárir í hvað sem er, sex núll vörn, fimm einn, þrjá þrjá vörn eða frönsku vörnina,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is í Kaíró í gær en handbolti.is er ásamt RÚV einu íslensku fjölmiðlarnir sem eru með fréttamenn á vettvangi heimsmeistaramótsins í Egyptalandi.