„Æfingamótið í Noregi kom að mínu mati vel út þótt spilamennskan hjá okkur hafi verið upp og ofan. Við vitum betur hvar við stöndum og hvers megi vænta,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U20 ára landsliðsins í handknattleik karla í samtali við handbolta.is í dag. Landsliðið tók þátt í Opna Skandinavíumótinu í Noregi í síðustu viku. Vann tvo leiki og gerði eitt jafntefli en leikið var við landslið Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar.
Þátttakan í mótinu í Noregi var liður í undirbúningi fyrir Evrópumótið sem hefst í Porto á fimmtudaginnn en íslenska landsliðið fer út í fyrramálið ásamt fríðu föruneyti og undir skeleggri fararstjórn Kjartans Vídó Ólafssonar.
Stórkostlegur leikur
„Við reyndum nokkur ný atriði í mótinu, meðal annars breyttan varnarleik í fyrsta leiknum á mótinu gegn Svíum. Í síðari hálfleik í þeim leik lékum við frábærlega og unnum upp átta marka forskot og náðum jafntefli. Þótt tilfinningin væri sú að viðureignin við Noreg væri ekkert sérstök kom í ljós eftir á að margt gekk þar betur en við töldum á meðan á leiknum stóð.
Síðasti leikurinn í mótinu var á móti Dönum. Þá lékum við mjög vel, ekki síst í fyrri hálfleik sem var stórkostlegur af okkar hálfu,” sagði Einar Andri sem fer fullur eftirvæntingar af stað til Porto í fyrramálið.
Ríkur metnaður til að ná langt
„Við erum afar ánægðir með stöðuna á liðinu um þessar mundir. Undirbúningurinn hefur gengið afar vel. Strákarnir hafa verið duglegir við æfingar síðustu þrjár vikur eftir að formlegur undirbúningur okkar hófst. Strákarnir hafa mikinn metnað og vilja til þess að ná árangri sem gerir okkur auðvelt að vinna með þeim. Þess vegna kom okkur ekkert á óvart hversu vel gekk á mótinu í Noregi,” sagði Einar Andri. Auk hans er Róbert Gunnarsson þjálfari U20 ára landsliðsins.
Í riðli með Evrópumeisturunum
Sextán lið taka þátt í Evrópumeistaramótinu. Þau voru dregin í fjóra riðla og verða landslið Serbíu, Ítalíu og Þýskalands andstæðingar Íslands á mótinu í þessari röð. Þjóðverjar eru ríkjandi Evrópumeistarar U19 ára landsliða frá síðasta ári þegar skotið var inn aukamóti eftir að Alþjóða handknattleikssambandið sló af heimsmeistaramótið vegna óvissu um þróun kórónuveirunnar og misjafnrar útbreiðslu hennar um heiminn.
Íslenska liðið er nærri því eins skipað nú og á EM 19 ára landsliða á síðasta sumri. Áttunda sætið var hlutskipti Íslands á mótinu eftir misjafna leiki.
Leikjadagskrá riðlakeppninnar: 7.júlí: Ísland - Serbía kl. 16. 8.júlí: Ísland - Ítalía, kl. 11. 10.júlí: Ísland - Þýskalandi, kl. 16. Íslenskur tími. Viaplay sendir út leikina.
Meðal átta efstu
„Við erum vel undirbúnir og verðum klárir í slaginn við Serba í fyrsta leiknum í mótinu á fimmtudaginn. Það er klárt mál. Okkar markmið er að komast upp úr riðlinum og vera í hópi átta efstu. Við höfum farið vel yfir okkar mál teljum okkur vita vel út í hvað við erum að fara,” sagði Einar Andri Einarsson, annar þjálfara U20 ára landsliðsins sem tekur þátt í Evrópumeistaramótinu sem hefst í Porto á fimmtudaginn.
Átta efstu sætin í mótinu tryggja sjálfkrafa þátttökurétt fyrir næsta U20 ára á EM eftir tvö ár.
Tvö lið fara áfram úr riðlinum í átta liða úrslit og mæta liðum úr C-riðli. Í C-riðli eru Frakkland, Króatía, Svartfjallaland og Svíþjóð. Tvö neðstu lið hvers riðils leik um 9. til. 16. sætið. U20 ára landsliðið Markverðir: Adam Thorstensen, Stjörnunni. Brynjar Vignir Sigurjónsson, Aftureldingu. Jón Þórarinn Þorsteinsson, Selfossi. Aðrir leikmenn: Andri Finnsson, Val. Andri Már Rúnarsson, Stuttgart. Arnór Viðarsson, ÍBV. Benedikt Gunnar Óskarsson, Val. Einar Bragi Aðalsteinsson, HK. Gauti Gunnarsson, ÍBV. Guðmundur Bragi Ástþórsson, Haukum. Ísak Gústafsson, Selfossi. Jóhannes Berg Andrason, Víkingi. Kristófer Máni Jónasson, Haukum. Símon Michael Guðjónsson, HK. Tryggvi Þórisson, Selfossi. Þorsteinn Leó Gunnarsson, Aftureldingu.