- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður 3. desember einnig minnistæður?

Kvennalandsliðið í handknattleik sem vann Úkraínu á EM í fyrrakvöld. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -
  • Fullveldisdagurinn, 1. desember, er dagur íslensku landsliðanna í handknattleik. Á sunnudaginn voru 28 ár liðin síðan karlalandsliðið vann Dani í eftirminnilegum úrslitaleik í Álaborg um sæti á HM 1997. Danir sátu þá eftir með sárt ennið og komust ekki á HM en íslenska liðið fór á mótið og sló eftirminnilega í gegn og hafnaði í 5. sæti.
  • Íslendingar keyptu upp aðgöngumiðana á leikinn í Álaborg með þeim afleiðingum að nær ekkert var af Dönum í litlu keppnishöllinni í borginni. Þáverandi landsliðsþjálfari Dana spurði í angist sinni hvaða kjána hafi dottið í hug að velja þetta hús sem keppnisstað fyrir svo mikilvægan leik.
  • Á síðsta sunnudag, 1. desember, 106 árum eftir að Ísland fékk fullveldi frá Dönum, braut kvennalandsliðið í handknattleik blað í handboltasögu Íslands. Liðið vann sinn fyrsta leik á Evrópumóti, lagði landslið Úkraínu, 27:24, í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í hjarta Tíról. Tveimur dögum fyrr var landsliðið ekki fjarri sigri ellegar jafntefli gegn Hollendingum.
  • Sigurinn á sunnudaginn var ekki bara í afgangsleik á EM þegar tjöldin voru fallin heldur opnaði hann fyrir úrslitaleik við þýska landsliðið um sæti í milliriðlakeppni mótsins. Sú staðreynd er stór áfangi. Reyndar ný staðreynd fyrir kvennalandsliðið sem ekki hefur staðið í svipuðum sporum áður á Evrópumóti.
  • Viðureignin við Þýskaland í kvöld hefst klukkan 19.30 í Ólympíuhöllinni í Innsbruck, 20.30 að staðartíma.
  • Þýska liðið er sært eftir að botninn datt úr leik þess gegn Hollendingum í fyrrakvöld. Þjóðverjar þurfa jafnmikið, ef ekki meira á sigrinum á halda. Það væri mikið áfall fyrir þýskan kvennahandknattleik ef landsliðið verður að pakka saman í fyrramálið og fara yfir landamærin til síns heima. Gleymum því ekki að Þýskaland er ásamt Hollandi gestgjafi HM að ári.
  • Pressan er á þýska liðinu. Það gerir sér grein fyrir að íslenska landsliðið er sýnd veiði en ekki gefin. Einnig man þýskt handknattleiksáhugafólk eftir tapinu fyrir Íslandi á HM 2011, 26:20, sem er eina viðureign þjóðanna á stórmóti.
  • Miði er alltaf möguleiki og miðað við frammistöðuna á mótinu til þess geta leikmenn íslenska landsliðsins borið höfuðið hátt þegar þeir mæta til leiks í Ólympíuhöllinni í Innsbruck í kvöld þótt líkurnar kunnu að vera á bandi þýska landsliðsins. Kvennalandsliðið er komið á alveg nýjan stað á ferli sínum og ómögulegt að slá einhverju föstu.
  • Eitt skref var stigið á fullveldisdaginn. Hver segir að ekki verði að hægt að stíga annað í kvöld? Pólverjar sendu Spánverja heim í gærkvöld, svo dæmi sé tekið.
  • Eftirvænting fyrir kvöldinu er mikil. Hvernig sem allt verkast er fullvíst að ég og Hafliði Breiðfjörð ljósmyndari fylgjum landsliðinu eftir hvort sem stefnan verður tekin til Vínarborgar eða München árla dags á morgun.

Ívar Benediktsson, [email protected]

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -