- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður áfram á fullri ferð með FH og landsliðinu

Aron Pálmarsson fyrirliði FH lyftir Íslandsbikarnum á dögunum. Ljósmynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Þegar ég lít til baka á tímabilið er ég ánægður með það. Þetta var gaman en um leið lærdómsríkt,“ sagði Aron Pálmarsson leikmaður FH og Íslandsmeistari í handknattleik 2024. Aron var valinn mikilvægasti leikmaður Olísdeildar í uppskeruhófi HSÍ og hlaut þar af leiðandi Valdimarsbikarinn.

Markmið næsta tímabils

„Ég er ánægður með árangurinn hjá okkur í FH þótt við séum ekki sáttir við að hafa ekki komist í undanúrslit í bikarkeppninni. Það verður þá markmið okkar á næsta tímabili samhliða öðru. Við vitum það einnig að ekki er hægt að ganga að því gefnu eins og úrslitakeppnin sannar best. Þá er komið inn í allt annað mót þar sem allt getur gerst,“ sagði Aron sem hafði ekki leikið hér heima í 14 ár þegar hann mætti til leiks með FH á síðasta hausti að loknum glæsilegum atvinnumannaferli í fjórum löndum Evrópu.

Þegar maður flytur heim þá er eins og maður hafi elst um 10 ár. Allir spyrja hvenær ég ætli að hætta. Ég verð bara 34 ára gamall í næsta mánuði.

FH, Íslandsmeistarar í handknattleik karla 2024. Ljósmynd/J.L.Long

Fólk streymdi að

Koma Arons hleypti miklu lífi í áhugann á FH-liðinu. Sáust þess strax merki í ágúst þegar Hafnarfjarðarmótið hófst og allt að þúsund áhorfendur mættu á leiki. Fullt var út úr dyrum á upphafsleik Olísdeildar þegar Aron mætti til leiks og lék listir sínar með FH gegn Aftureldingu. Sömu lið luku Íslandsmótinu í síðasta mánuði.

Engan bilbug að finna

Engan bilbug er að finna á Aroni sem hlær við spurningu blaðamanns hvort hann verði ekki með af fullum krafti á næsta tímabili.

„Þegar maður flytur heim þá er eins og maður hafi elst um 10 ár. Allir spyrja hvenær ég ætli að hætta. Ég verð bara 34 ára gamall í næsta mánuði. Það er nóg eftir. Ég skal láta rækilega vita af því þegar ég hætti. Ég reikna ekki með að það eigi eftir að fara framhjá nokkrum manni,“ sagði Aron og bætti við:

Landsliðið er gulrótin

„Ég ætla mér að sjálfsögðu að halda áfram að leika með FH og halda mér í því standi og leikformi til geta líka verið áfram með landsliðinu. Landsliðið er ennþá risastór gulrót fyrir mig. Löngunin til þess að vinna eitthvað stórt með landsliðinu er ennþá fyrir hendi. Framundan er HM í janúar og við höfum á að skipa frábæru landsliði en því miður ekki tekist að vinna til verðlauna ennþá svo kannski er best að spara yfirlýsingarnar á þessu stigi,“ sagði Aron Pálmarsson sem hlakkar til sumarsins.

Elín Klara og Benedikt Gunnar best í Olísdeildum

Myndasyrpa: Meistarafögnuður FH-inga

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -