- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verður ekki merkileg helgi í minningunni

Janus Daði Smárason á fullri ferð í Lanxess Arena. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

„Það er ekkert spes að koma hingað og tapa tveimur leikjum. Þar af leiðandi verður þetta ekki merkileg helgi í minningunni. Við vorum því miður ekki nógu skarpir í þessum tveimur síðustu leikjum okkar,“ sagði Janus Daði Smárason leikmaður SC Magdeburg í samtali við handbolta.is í Lanxess Arena í Köln eftir að Magdeburg tapaði fyrir THW Kiel í leiknum um bronsverðlaunin í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla í dag, 32:28.

Mættu með meiri orku

„Það er mjög sérstakt að taka þátt í leik um þriðja sætið eftir tap í gær. Við einfaldlega gerðum það bara ekki nógu vel. Leikmenn Kiel mættu með meiri orku sem okkur tókst ekki að mæta í fyrri hálfleik. Þar leiðandi verður erfitt að koma til baka í síðari hálfleik eftir að hafa verið níu mörkum undir í hálfleik. Við reyndum að krafsa í þá og bjarga okkur en það dugði ekki,“ sagði Janus Daði og viðurkenndi að vonbrigðin væru mikil yfir að vinna ekki undanúrslitaleikinn í gær og leika þar af leiðandi ekki til úrslita í dag. Það hafi sennilega setið í mönnum þegar á hólminn var komið.

Fínt að komast í frí

„Leikurinn í dag var svekkjandi og það að ná ekki lengra. Eftir þessa tvo leiki verður fínt að komast í sumarfrí,“ sagði Janus Daði sem kveður nú SC Magdeburg eftir eins árs veru. Hann vann þýska meistaratitilinn, bikarkeppnina og heimsmeistaramót félagslið með liði félagsins.

Litið stoltir til baka

„Ég vona að ég geti litið til baka í sumarleyfinu og áttað mig á að við náðum miklum árangri í ár þótt þessi helgi hafi ekki gengið að óskum. Allt annað en leikina tvo um helgina gerðum við vel og getum vonandi verið stoltir þegar litið verður til baka.
Hjá mér tekur við ný áskorun á nýjum stað með nýju liði og í enn betra standi en áður,“ sagði Janus Daði Smárason leikmaður SC Magdeburg í samtali við handbolta.is í Lanxess Arena í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -