„Tímabilið endaði eins og til stóð hjá okkur. Þetta verður ekki betra og venst vel,“ sagði hinn þrautreyndi handknattleiksmaður Íslandsmeistara Vals, Finnur Ingi Stefánsson, þegar handbolti.is hitti hann eftir að Finnur Ingi og félagar tóku á móti Íslandsbikarnum í handknattleik að loknu úrslitaeinvígi við ÍBV í Vestmannaeyjum í gær. Annað árið í röð vinnur Valur titilinn og er þar með handhafi allra stóru titlana, þ.e. auk Íslandsmeistaratitilsins er það bikarmeistaratitillinn og deildarmeistaratitillinn í Olísdeildinni.
Yfir engu að kvarta
„Keppnistímabilið hefur verið frábært. Leikirnir skipta nokkrum tugum, við unnum þá flesta, allir titlarnir og síðan ágæt frammistaða í Evrópukeppninni í haust. Við getum ekki kvartað yfir nokkrum sköpuðum hlut,“ sagði Finnur Ingi. Spurður hvort þetta væri sterkasta lið sem hann hefur leikið með um dagana sagði hann það ekki vera fjarri því. Sérlega gleðilegt sé þó að sjá unga leikmenn spretta fram á hverju ári.
Góð þróun innan liðsins
„Ég held það og svo er afar jákvætt hversu margir ungir strákar hafa komið fram á sjónarsviðið. Má þar nefnda Stiven, Arnór Snæ, Benedikt Gunnar í vetur og Tumi Steinn á síðasta tímabili. Þróunin er þar af leiðandi góð innan liðsins.
Allt helst í hendur
Þegar komið er út í úrslitakeppnina þá þarf gott lið á öllum leikmönnum að halda, hvort sem þeir eru ungir eða gamlir, lítt reyndir eða þrautreyndir. Þetta er alveg einstakt lið eins og það er skipað núna. Þess utan er samstaðan og andinn innan liðsins frábær. Allt helst í hendur til þess að ná þeim árangri sem við höfum náð,“ sagði Finnur Ingi.
Pakkinn er mjög þéttur
„Fjöldi titlanna á undanförnum tveimur tímabilum hlýtur að staðfesta að Valsliðið í dag er besta félagslið sem ég hef leikið með á ferlinum. Ekki bara þegar litið er til einstaklinganna og hversu góðir þeir eru heldur allt í kringum liðið, utan vallar sem innan. Pakkinn er mjög þéttur. Við erum góðir félagar. Nokkuð sem þarf til þess að halda áfram að vinna og vinna, halda út og takast á við ýmsar aðstæður á mjög löngu keppnistímabili.“
Sigurinn í þriðja leik gaf mikið
Finnur Ingi sagði að það sýndi m.a. styrk Valsliðsins þegar það reif sig upp úr því að vera fjórum mörkum undir skömmu fyrir leikslok í þriðju viðureigninni við ÍBV og snúa stöðunni upp í sigur.
„Það gaf okkur rosalega mikið að ná að vinna okkur upp úr holunni vegna þess að það vill gleymast að það var svolítið langt síðan að við unnum jafnan leik eða viðureign þar sem við lentum undir þegar lítið var eftir af leiktímanum. Sigurinn á fimmtudagskvöldið gaf okkur mikið sjálfstraust fyrir viðureignina í dag. Þótt ÍBV kæmi með hvert áhlaupið á fætur öðru í dag í viðbót við að okkur tókst aldrei að slíta okkur frá þeim, þá höfðum við alltaf trú á að okkur tækist að sigla heim sigrinum í jöfnum leik,“ sagði Finnur Ingi Stefánsson.
Fæst orð, minnst ábyrgð
Spurður hvort hann haldi ekki áfram að leika með Val á næsta tímabili svaraði Finnur Ingi sposkur á svip. „Sennilega er best að segja sem minnst um það á þessari stundu.“