„Það er svakalega skemmtilegt fyrir okkur leikmenn og alla áhugamenn um handknattleik hér á landi að fá þýsku bikarmeistarana til Íslands og sjá hver styrkurinn á þeim er. Lemgo er með frábært lið sem meðal annars stóð í einu besta félagsliði heims, Kiel, á dögunum,“ sagði Vignir Stefánsson leikmaður Íslandsmeistara Vals um væntanlega viðureign við þýsku bikarmeistara Lemgo í kvöld í Origohöllinni.
Um er að ræða fyrri viðureign liðanna í annarri umferð Evrópudeildarinnar. Flautað verður til leiks klukkan 18.45 og eru áhorfendur að vanda velkomnir í Origohöllina.
„Við hlökkum til að máta okkur við þýsku bikarmeistarana. Hér er um að ræða frábært lið. Við erum brattir og ætlum að selja okkur dýrt,“ sagði Vignir.
„Við gerum okkur grein fyrir styrkleikanum á Lemgoliðinu. Um leið þekkjum við okkar kosti og ætlum að njóta þess að leika þennan leik í þessum umhverfi. Ekki má gleyma því að njóta í öllum hamaganginum. Þetta verður fyrst og fremst skemmtilegt,“ sagði Vignir ennfremur en miklar annir hafa verið hjá Valsmönnum síðustu vikur. Liðið er fullt sjálfstrausts eftir að hafa lokið fyrstu umferð Evrópukeppninnar, tryggt sér sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar auk sigurs í meistarakeppni HSÍ.
Síðari leikurinn verður á heimavelli Lemgo eftir viku.
Með Lemgo leikur m.a. landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson. Hann hefur verið markahæsti leikmaður liðsins tvö síðustu ár og m.a. markakóngur þýsku 1. deildarinnar leiktíðina 2019/2020.
Leikmenn Lemgo komu til landsins í gær. Þjálfari liðsins er Florian Kehrmann. Hann hefur stýrt liðinu í sjö ár en var þar áður leikmaður þess frá 1999. Kehrmann, sem var hægi hornamaður, lék á sínum tíma 223 landsleiki fyrir Þýskaland og skoraði 820 landsliðsmörk. Hann var m.a. í sigurliði Þýskalands á heimsmeistaramótinu árið 2007.
Nokkrir Íslendingar hafa leikið með Lemgo í gegnum tíðina og má m.a. nefna auk Bjarka Más, Sigurð Vals Sveinsson, Loga Geirsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, og Vigni Svavarsson.
Miðasala á leikinn í kvöld fer fram í gegnum miðasöluappið Stubbur en einnig verða aðgöngumiðar fáanlegir við innganginn. Leikurinn hefst klukkan 18.45 eins og fyrr sagði.