- Auglýsing -
- Verður hætt að keppa í handknattleik á Ólympíuleikum eða verður íþróttagreinin færð af sumarleikum yfir á vetrarleika? Þessum spurningum hefur oft og tíðum verið velt upp á þeim liðlega 30 árum sem ég hef verið viðloðandi íþróttafréttmennsku.
- Nánast allt frá því handknattleikur varð keppnisgrein á Ólympíuleikum, 1972 í karlaflokki og fjórum árum síðar í kvennaflokki, hefur ýmsum þótt stinga í stúf að keppa í handknattleik á sumarleikum. Reyndar er sú skoðun einnig fyrir hendi að handbolti.is eigi að vera lokaður þrjá mánuði yfir sumarið því ekkert sé að gera. Það er önnur saga.
- Þrátt fyrir að handknattleikur sé stundum meðal þeirra íþróttagreina sem hefur hvað besta aðsókn almennings á Ólympíuleikum, eins og t.d. í Frakklandi í sumar, þá þykir ekki sjálfsagt að áfram verði keppt í handknattleik, alltént ekki á sumarleikum. Flest þátttökuliðin eru frá Evrópu. Íþróttin er þar af leiðandi lítt áhugaverð söluvara fyrir sjónvarp utan Evrópu þegar markaðsmenn Alþjóða Ólympíunefndarinnar, IOC, líta yfir sviðið og telja peningabúntin. Nokkuð var ekki raunin fyrir meira en hálfri öld þegar handbolti var settur á dagskrá Ólympíuleika, ekki síst fyrir atbeina Þjóðverja.
- Hermt er að ágætt samband milli Thomas Bach forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar og Hassan Moustafa forseta Alþjóða handknattleikssambandsins hafi átt sinn þátt í að lítt hefur verið rætt um á allra síðustu árum að strika handbolta út af dagskrá Sumarólympíuleika. Hinsvegar kann að verða breyting á. Hvorki Bach né Moustafa verða eilífir í embættum sínum og sá fyrrnefndi jafnvel á útleið á árinu sem var renna í garð. Enginn stöðvar tímans þunga nið, sagði Davíð Stefánsson frá Fagraskógi.
- Alþjóða Ólympíunefndin er sífellt að endurskoða hvaða íþróttagreinar eiga heima á sumarleikum og hverjar ekki. Nokkrar breytingar hafa átt sér stað á þessari öld. Til eru þeir sem vilja færa einhverjar innanhússíþróttir af sumarleikum yfir til vetrarleika og styrkja þar með vetrarleikana. Einnig er ljóst að keppni í handknattleik og fleiri innanhússíþróttagreinum liggur betur við að hafa á dagskrá vetrarleika. Með því yrði lífgað upp á dagskrá vetarólympíuleika sem þykir ekki lengur hafa nægilega víða skírskotun og gera að betri söluvöru.
- Meðal þeirra sem vilja stokka upp dagskrá Ólympíuleika og flytja greinar af sumarleikum yfir á vetrarleika er Sebastian Coe lávarður og forseti Alþjóða frjálsíþróttasambandsins. Coe þykir koma sterklega til álita sem eftirmaður Þjóðverjans Thomas Bach í stól forseta Alþjóða Ólympíunefndarinnar.
- Coe er eindreginn áhugamaður að færa íþróttagreinar sem að stundaðar eru innandyra að vetri, t.d. handbolti, körfubolti, blak, badminton og borðtennis, yfir á Vetrarólympíuleika. Að hans mati tilheyra þessar greinar fremur vetrar- en sumarleikum.
- Um leið verður til rými fyrir nýjar greinar á sumarleikum svo sem sandhandbolta (stundum kallaður strandhandbolti þótt stundaður sé fjarri ströndum). Sandhandbolti nýtur vaxandi vinsælda víða um heim þótt ekki hafi hann skotið rótum hér á landi nema upp á grín og gaman.
- Ljóst er að margir munu reka upp ramakvein, ekki bara forystumenn handknattleiksins, fái Coe brautgengi og hans hugmyndir um uppstokkun íþróttagreina á Sumar- og vetrarólympíuleikum.
- Hvernig þessar breytingar falla í kramið hjá t.d. Alþjóða handknattleikssambandinu og Handknattleikssambandi Evrópu sem halda stórmót annað hvert ár að vetri skal ósagt látið. Víst er hinsvegar að ef þær falla í grýttan jarðveg er Alþjóða Ólympíunefndinni trúandi til að slá handknattleik út af borði keppnisgreina Ólympíuleika. Lítt mun þá tjóa að berja lóminn.
Ívar Benediktsson, [email protected]
- Auglýsing -