- Auglýsing -

Verður HM kvenna ekki í þýsku sjónvarpi?

- Auglýsing -


Þrír mánuðir eru þangað til heimsmeistaramót kvenna í handknattleik hefst í Hollandi og Þýskalandi. Undirbúningur gengur að vonum í báðum löndum enda skipulag, röð og regla eitthvað sem báðum gestgjöfum er í blóð borið. Eitt er þó með öllu óljóst hvort og þá hver muni sjónvarpa leikjum mótsins í Þýskalandi þar sem meiri áhugi er fyrir handknattleik en í Hollandi. Engin þýsk sjónvarpsstöð hefur enn keypt sýningaréttinn. Sem stendur lítur ekki út fyrir að leikir þýska landsliðsins né úrslitaleikir verði sendir út í línulegri dagskrá.

Horft til ARD og ZDF

Bundnar hafa verið vonir við að ARD og ZDF keyptu sýningarréttinn en stöðvarnar sameinuðust í sumar um útsendingar frá Evrópumóti kvenna í fótbolta. Til þessa hefur ekki verið áhugi hjá stöðvunum fyrir HM kvenna í handbolta. Mark Schober hjá þýska handknattleikssambandinu segir við handball-world að enn sem komið hafi þýskar sjónvarpsstöðvar ekki sýnt mótinu áhuga.

Ísland í C-riðli með Þjóðverjum í Stuttgart á HM kvenna

Leikir Þýskalands á EM kvenna á síðasta ári voru sendir út á opinni streymisveitu líkri Handboltapassanum hér á Íslandi. Í versta falli verður það gert aftur á HM. Einnig voru samantektir sýndar á Eurosport.


Miðasala er hafin á leiki Íslands á HM kvenna

Miðasala er á áætlun

Á móti kemur að miðasala á leiki hefur verið nokkuð í takti við væntingar. Þegar hefur rúmlega þriðjungur aðgöngumiða verið seldur á leiki Þýskalands en íslenska landsliðið verður í riðli með Þjóðverjum í riðli sem leikinn verður í Stuttgart. Eins mun íslenska liðið fylgja þýska landsliðinu til Dortmund í milliriðla hvar miðasala hefur verið bærileg. Vonir standa til þess að miðasala glæðist þegar kemur inn á haustið og auglýsingaherferðir sem eru að hefjast ná athygli.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -