„Við erum mjög spennt fyrir þessum leikjum þótt það vanti nokkrar í okkar lið sem eru meiddar eða óléttar. En það verður mikil reynsla að fá að spila við HK,” segir Gunnar Valur Arason, þjálfari kvennaliðs Fjölnis-Fylkis. Lið hans mætir HK í kvöld í Kórnum í fyrstu um ferð undanúrslita umspilsins um sæti í Olísdeild kvenna á næstu leiktíð.
Viðureignin hefst klukkan 19.30 í Kórnum. Á sama tíma hefst viðureign Gróttu og ÍR í Hertzhöllinni en það er hin viðureign undanúrslitanna. Vinna þarf tvo leiki til þess að öðlast sæti í úrslitum umspilsins.
HK lék í Olísdeild kvenna á keppnistímabilinu og hafnaði í næst neðsta sæti en lið Fjölnis-Fylkis er í Grill 66-deildinni. Ljóst er að leikmenn Fjölnis-Fylkis ráðast ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í kvöld.
„HK eru með frábært lið og eina af geitunum í íslenskum handbolta í liðinu sínu, markahæsta leikmann 66 deildarinnar í ár og markahæsta leikmann 66 deildarinnar fyrir þremur árum svo ég býst við að mjög reyni á mitt lið en að sama skapi mikilli skemmtun. Meðal okkar ríkir eftirvænting að fá að spila við þær bestu. Eins og þetta ætti að vera allt árið með einni deild,” segir Gunnar Valur ennfremur.
Unnu sinn leikinn hvort
Grill 66-deildar liðin Grótta og ÍR bítast um hitt sætið í úrslitum umspilsins. Þau mætast einnig í kvöld og þá á heimavelli Gróttu, Hertzhöllinni á Seltjarnaresi. Flautað verður til leiks klukkan 19.30.
Liðin leiddu saman hesta sína í tvígang í deildinni á keppnistímabilinu og unnu sinn leikinn hvort. Grótta hafði betur í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi 22. janúar, 25:20. ÍR svaraði fyrir sig í Austurbergi 6. marks, 22:21.
Karen Ósk Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR, segir segir að eftirvænting ríki í herbúðum Breiðholtsliðsins fyrir leikjunum sem standa fyrir dyrum.
„Við ÍR-stelpur og allir í kringum okkur erum mjög spennt fyrir þessum umspilsleikjum sem framundan eru. Við ætlum auðvitað inn í leikina með það markmið að gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna þá,“ sagði Karen Ösp við handbolta.is.
Til stóð að leggja liðið niður
„Það væri svo frábært fyrir félagið, okkur sjálfar og fólkið okkar að sýna góða frammistöðu og „performa“. Fyrir ári var staðan þannig að það átti ekki að halda úti kvennaliði í vetur. Við höfum heldur betur sýnt að það hefði verið svakalega röng ákvörðun ef hún hefði fengið að standa.
Hópurinn hjá okkur er frábær og þéttur, stelpur á öllu aldursbili og mér finnst við verða þéttari og sterkari karakterar með hverri æfingunni sem líður. Við erum allar klárar og ætlum að koma grimmar inn í þessa leiki og sýna fólkinu okkar og íslenskum handbolta úr hverju við erum gerðar,“ sagði Karen Ösp Guðbjartsdóttir, markvörður ÍR, ákveðin og ljóst að framundan eru skemmtilegir leiki í undanúrslitum umspilsins.
Næstu leikir á laugardaginn 15. maí:
Austurberg: ÍR – Grótta kl. 13.30.
Dalhús: Fjölnir-Fylkir – HK, kl. 15.
Oddaleikir, ef með þarf, þriðjudaginn 18. maí:
Kórinn: HK – Fjölnir-Fylkir, kl. 19.30.
Hertzhöllin: Grótta – ÍR, kl. 19.30.