„Leikurinn við Króata verður öðruvísi en á móti Dönum og Hollendingum. Það verður meiri átök með stórum og sterkum skyttum og línumönnum. Þetta verður mjög erfiður leikur,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is fyrir æfingu landsliðsins í keppnishöllinni í Búdapest eftir miðjan dag í gær.
Framundan er stórleikur við Króata í 3. umferð milliriðlakeppni Evrópumótsins. Leikur sem skiptir lið beggja þjóða miklu. Íslenska landsliðið getur farið langt með að tryggja sér sæti í undanúrslitum EM með sigri. Króatar þurfa á sigri að halda til þess að rétt við stöðuna sína en þeir eru neðstir í milliriðli eitt án stiga.
Flautað verður til leiks klukkan 14.30 að íslenskum tíma. Eins og margoft hefur komið fram hefur íslenskt landslið aldrei unnið króatískt landslið á stórmóti í karlaflokki í handknattleik.
Var lengi að sofna
Viktor Gísli viðurkenndi að hafa verið lengi að sofna eftir leikinn við Frakka á laugardagskvöldið. Hann fór hamförum í íslenska markinu og lauk leik með 43% hlutfallsmarkvörslu. Viktor Gísli sagðist hafa horft á upptöku af leiknum fljótlega eftir að hann vaknaði í gærmorgun. Að því loknu fór hann að búa sig undir leikinn við Króata. „Maður var nokkuð fljótur að ná sér niður og hefja undirbúning fyrir næsta leik.“
Spurður hver hafi verið lykillinn að sigrinum á Frökkum sagði Viktor Gísli frábæran fyrri hálfleik hafa lagt grunninn að öllu saman. „Við vorum hreint sturlaðir í fyrri hálfleik og náðum síðan að halda okkar striki í síðari hálfleik. Frakkar fengu aldrei tækifæri til komast inn í leikinn. Okkar áætlun gekk alveg upp.
Í hálfleik stilltum við okkur af og lögðum upp með að staðan væri jöfn og koma yrði í veg fyrir að Frakkar næðu áhlaupi á fyrstu tíu mínútunum. Okkur tókst að halda aftur af þeim,“ sagði Viktor Gísli sem sagði það hafa verið magnað að vera með Ými Örn Gíslason og Elliða Snæ Viðarsson fyrir framan sig í vörninni í þeim ham sem á þá rann í leiknum.
Rétta blandan varð til
„Svo fann maður einnig stemninguna frá áhorfendum í stúkunni fyrir aftan mig. Allt skapaði þetta réttu blönduna sem hjálpaði verulega,“ sagði Viktor sem viðurkenndi að vera feiminn að eðlisfari.
„Um leið og mér tekst að gleyma mér í stemningunni þá á ég mína bestu leiki,“ sagði markvörðurinn ungi, Viktor Gísli Hallgrímsson í samtali við handbolta.is í gær.
Sem fyrr segir þá hefst viðureign Íslands og Króatíu kl. 14.30 í dag.