Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals hefur skoðað spænska liðið BM Porriño í þaula fyrir fyrri úrslitaleikinn í Evrópubikarkeppni kvenna sem fram fer í Porriño á norðvesturhluta Spánar á morgun, laugardag. Hann segir liðið vera „mjög vel spilandi“ og hafi innan sinna raða spænska landsliðskonu, öfluga skyttu, auk þriggja landsliðsmanna frá Argentínu.
„Þetta er hörkulið sem leikur agressíva vörn og heldur uppi miklum hraða eins og spænsk lið eru þekkt fyrir. Eðlilega erum við að búa okkur undir mjög erfiðan leik,“ segir Ágúst Þór í samtali við handbolta.is.
Reiknað er með að uppselt verði á leikinn í Porriño á morgun en 2.000 áhorfendur rúmast í keppnishöllinni eftir að færanlegar stúkur fyrir 400 áhorfendur til viðbótar voru settar upp í vikunni.
Stefnir í að uppselt verði á úrslitaleik Vals á Spáni – nærri 2.000 miðar seldir
Ætlum að ná í úrslit
„Markmið okkar er skýrt; að ná í eins hagstæð úrslit og hægt er. Á laugardaginn eigast við tvö reynslumikil og öflug lið. Við ætlum að ná í úrslit sem halda okkur á lífi fyrir síðari leikinn,“ segir Ágúst Þór ennfremur og bætir við:
„Auðvitað langar okkur rosalega að vinna titilinn og klára dæmið á heimavelli. Enn sem komið er getum við ekki hugsað út í það. Við búum okkur vel undir leikinn til að ná góðri frammistöðu. Ef það tekst þá er ég sannfærður um að við getum klárað verkefnið. Þetta verður snúinn leikur í mikilli stemningu. Við verðum bara að vera í standi þegar á hólminn verður komið,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson hinn þrautreyndi þjálfari Vals sem kominn er með lið sitt í úrslit Evrópubikarkeppninnar.
Lengra viðtal er við Ágúst Þór í myndskeiði hér fyrir ofan.
Fyrri viðureign BM Porriño og Vals hefst klukkan 15 á laugardaginn. Útsending verður á RÚV frá leiknum.
Síðari leikurinn fer fram á heimavelli Vals laugardaginn 17. maí og hefst einnig klukkan 15.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.