- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Verkefnið verður erfitt en um leið skemmtilegt

Arnar Pétursson landsliðsþjálfari á eftir að velta mörgu fyrir sér á næstu vikum og mánuðum áður en flautað verður til leiks á HM 30. nóvember. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

„Það lá alltaf fyrir að við myndum mæta hörkuliðum á heimsmeistaramótinu og sú er nú orðin raunin,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik þegar handbolta.is heyrði í honum hljóðið eftir að dregið var í riðla heimsmeistaramótsins í handknattleik í Gautaborg í dag. Ísland, sem var í fjórða og neðsta styrkleikaflokki, er í riðli með Frakklandi, Slóveníu og Angóla sem er Afríkumeistari.

Frakkar, Slóvenar og Angólar andstæðingar Íslands á HM kvenna

„Verkefnið verður erfitt en um leið skemmtilegt. Frakkar og Slóvenar eru þekktar stærðir og ekki langt síðan við lékum gegn þeim landsliðum. Angóla er Afríkumeistari og hefur verið inni á öllum heimsmeistaramótum á þessari öld og einnig oft á Ólympíuleikum. Angóla verður einnig mjög erfiður andstæðingur,“ sagði Arnar.

Mættu Angóla á HM 2011

Þess má geta til fróðleiks að Ísland mætti einnig Angóla í riðlakeppni HM 2011 í Brasilíu og tapaði með fjögurra marka mun, 28:24, eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik, 15:12.

Leikir Íslands í D-riðli HM.
30. nóvember: Slóvenía - Ísland.
2. desember: Ísland - Frakkland.
4. desember: Angóla - Ísland.
- Leikið verður í Stavanger Idrettshal.
- Þrjú efstu liðin komast í milliriðil og mæta liðum úr C-riðli; Noregur, Suður Kórea, Grænland, Austurríki.
- Ef íslenska liðið rekur lestina í riðlinum tekur það þátt í forsetabikarnum, sæti 25 - 32, sem leikinn verður í Frederikshavn á norður hluta Jótlands, 7., 9., 11. og 13. desember.

Þátttakan skiptir miklu máli

„Við fengum boðskort inn á mótið og erum afar ánægð með það. Ljóst er að við munum fá mikið út úr mótinu hvernig sem leikirnir fara. Þátttakan skiptir okkur mjög miklu máli og mun skila okkur mikilli reynslu. Hvernig sem fer þá er ég viss um að við munum öll fara sterkari heim að mótinu loknu,“ sagði Arnar.

Næstu leikur í október

Næstu leikir kvennalandsliðsins verða við Færeyjar og Lúxemborg í undankeppni Evrópumótsins snemma í október. Arnar sagði að þátttaka Íslands á HM, sem var ekki staðfest fyrr en á mánudaginn, breyti hugsanlega því sem stóð til að gera í nóvember í aðdraganda heimsmeistaramótsins.

Leikir við Noreg B standa til boða

„Á næstunni þá förum við setja niður fyrir okkur hvaða kostir eru í stöðunni. Okkur stóð og stendur enn til boða að vera í Noregi í aðdraganda HM og mæta B-landsliði Noregs,“ sagði Arnar Pétursson landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -