Hörður Fannar Sigþórsson tilkynnti á dögunum að hann hafi ákveðið að rifa seglin og láta gott heita á handboltavellinum eftir 21 ár í meistaraflokki. Hann hefur síðustu ár leikið í Færeyjum fyrir utan eitt tímabil hjá EHV Aue í Þýskalandi, 2014 til 2015. Framan af lék hann hér á landi með uppeldisfélagi sínu Þór, síðar Akureyri handboltafélagi, KA og auk eins árs hjá HK.
„Ég er orðinn 39 ára gamall og tel að nú sé bara góður tími til hætta. Tímarnir breytast og mennirnir með,“ sagði Hörður Fannar þegar handbolti.is sló á þráðinn til hans í liðinni viku.
Hættir á eigin forsendum
„Ég á von á mínu þriðja barni í maí auk þess sem það er nóg að gera hjá mér í vinnunni. Ég hef bara ekki tíma í þetta lengur. Eftir sem maður eldist þá verður maður að æfa meira til þess að halda sér í formi. Ég ákvað í haust þegar keppnistímabilið hófst að þetta yrði það síðasta. Til stóð að láta gott heita á síðasta ári en vegna kórónuveirunnar þá varð keppnistímabilið endasleppt. Mér fannst það ekki viðeigandi endapuktur svo ég ákvað að taka eitt tímabil enn og ná þannig að hætta á mínum forsendum,“ segir Hörður Fannar.
„Þetta var hrikalega stórt stökk og á Rúnar þakkir skildar fyrir að þora að gefa mér þetta tækifæri“
„Ég get gengið nokkuð stoltur frá handboltaferlinum eftir að hafa leikið með mörgum frábærum leikmönnum og eignast fjölda góðra vina og kunningja utan vallar sem innan á þessum árum, heima á Íslandi, hér í Færeyjum og einnig í Þýskalandi,“ segir Hörður Fannar og bætir við að það hafi verið toppurinn á sínum ferli að hafa fengið tækifæri til þess að leika með EHV Aue í Þýskalandi leiktíðina 2014/2015.
Var kominn eftir viku
„Rúnar Sigtryggsson var að þjálfa Aue á þessum tíma. Hann hafði samband við mig spurði hvort ég væri ekki til í að koma og aðstoða sig vegna þess að margir leikmenn voru meiddir. Hann vantaði mann sem gæti leikið á línunni og tekið að sér ákveðið hlutverki í vörninni. Um viku eftir að ég var fyrst í sambandi við Rúnar og Árna bróður hans, sem þá lék einnig með Aue, var ég kominn til Þýskalands. Upphaflega stóð til að ég yrði hjá Aue í þrjá mánuði og fékk því samning fram að áramótum. Þegar leið nærri lokum þess tímabils var mér boðið að framlengja út leiktíðina um vorið 2015 og ég sló til. Sennilega var tímabilið mitt í Þýskalandi eitt það besta á ferlinum.“
Æft, borðað og sofið
Hörður Fannar segir það hafa verið gríðarleg viðbrigði að koma til Þýskalands. Hann hafi ekki verið í sínu allra besta formi. Fyrstu vikurnar hafi ekki farið í annað en að æfa, borða og sofa. „Ég hafði ekki orku í neitt annað enda mikil breyting að koma frá Færeyjum þar sem æft var fjórum til fimm sinnum viku yfir að æfa átta sinnum í viku í Þýskalandi auk leikja. Þetta var hrikalega stórt stökk og á Rúnar þakkir skildar fyrir að þora að gefa mér þetta tækifæri,“ segir Hörður Fannar. Tímabilið 2014/2015 var sannkölluð Íslendinganýlenda hjá Aue en þar voru auk Rúnars fimm íslenskir handknattleiksmenn á samningi.
„Segja má að þá hafi verið við lýði hálfgerður trukkabolti“
Auk tímabilsins í Þýskalandi segir Hörður Fannar að veturinn 2010/2011 sé eftirminnilegur en þá lék hann með Akureyri handboltafélagi undir stjórn Atla Hilmarssonar. Akureyri varð deildarmeistari vorið 2011 og lék til úrslita í bikarkeppninni og á Íslandsmótinu en laut í lægra haldi á báðum vígstöðvum. „Þar var á ferðinni eitt allra besta liðið sem verið hefur á Akureyri svo árum skiptir með valinn mann í hverju skipsrúmi. Verst var að hafa ekki náð að vinna annan hvorn bikarinn til viðbótar.“
Byrjaði hjá Kyndli
Hörður Fannar flutti til Færeyja 2012 og lék með Kyndli undir stjórn Hafnfirðingsins Finns Hanssonar. Hann staldraði þó stutt við í það skiptið og kom aftur heim í lok ársins og tók upp þráðinn með Akureyri eftir áramótin en var svo óheppinn að slíta krossband í fyrsta leik. Um sumarið fór Hörður til Færeyja á ný og hefur búið þar síðan að undanskildum vetrinum í Þýskalandi.
Með Kyndli lék Hörður til ársins 2017 er hann skipti yfir til Klaksvíkur hvar hann lék í tvö ár. Sumarið 2019 gekk Hörður til liðs við KÍF í Kollafirði þar sem hann hefur leikið síðan.
Breyting til batnaðar
Handknattleikur í Færeyjum hefur tekið miklum stakkaskiptum síðan Hörður kom fyrst út árið 2012. Þjálfun hefur gjörbreyst til batnaðar, ekki síst hjá börnum og unglingum, sem hefur skilað sér í fleiri yngri handknattleikskörlum og konum á síðustu árum en alls stunda um 3000 handknattleik í Færeyjum.
Bætt þjálfun þeirra yngri
„Þegar ég kom út 2012 þá var talsvert af eldri mönnum að leika með liðunum í efstu deild. Segja má að þá hafi verið við lýði hálfgerður trukkabolti. Menn voru ekki að spila fast heldur greinlega gróft og fyrir vikið var mikið um alvarleg meiðsli. Framfarirnir hafa verið miklar á síðustu árum í Færeyjum. Sérstaklega er barna og unglingastarfið orðið gott og þar stendur lið H71 sennilega fremst um þessar mundir.
Skortir hæð
Nú er lögð mikið meiri áhersla á styrktaræfingar en þær þekktust vart þegar ég flutti út 2012.
Allt hefur þetta skilað sér í sterkari félagsliðum, betri handbolta auk þess sem landsliðin eru orðin samkeppnishæfari en áður var. Færeyingar eiga til dæmis mjög lofandi ungmennalandslið í karlaflokki. Fleiri leikmenn leika utan heimalandsins með hverju árinu sem líður. Það háir Færeyingum hinsvegar talsvert í alþjóðlegri keppni að þá skortir hæð. Við því er erfitt að gera vegna þess að Færeyingar eru frekar lágvaxnir,“ segir Hörður Fannar.
„Ég get gengið nokkuð stoltur frá handboltaferlinum“
Úr bjór í gólfefni
Hörður Fannar hefur unnið sem sölumaður í gólfefnadeild hjá byggingavöruverslunarkeðjunni Bygma í um eitt ár eftir að hafa verið um árabil sölumaður gosdrykkja og bjórs hjá Færeyjabjór.
Hörður Fann býr með færeyskri konu og eiga þau von á sínu fyrsta barni í maí. Fyrir á hann 12 ára dreng sem býr á Akureyri og annan átta ára son í Færeyjum úr fyrri sambúð.
Breyttar áherslur
„Nú er kominn tími til að snúa sér að fjölskyldunni og taka meiri þátt í uppeldi barnsins sem væntanlegt er auk þess sem nóg er að gera í vinnunni. Það hefur farið mikill tími handboltanum og maður heldur ekki endalaust áfram. Ég mun örugglega hafa nóg að gera og svo er aldrei að vita nema maður fari á eina og eina æfingu með félögunum til þess að halda sér í þokkalegu standi,“ segir Hörður Fannar Sigþórsson sem kann afar vel við sig í Færeyjum.