- Auglýsing -
- Auglýsing -

Við ætlum okkur í undanúrslit

Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Við ætlum okkur áfram, það er engin spurning. Úr því að við erum komnir í þessa stöðu þá kemur ekkert annað til greina en að fara í undanúrslit. Við eigum að geta gert betur í síðari leiknum,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals í samtali við handbolta.is í kvöld eftir eins marks sigur Valsara á rúmenska liðinu Steaua Búkarest, 36:35, í fyrri viðureign liðanna í átta liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar í handknattleik karla. Leikið var í Búkarest.


„Sigur er alltaf sigur þótt hann hafi verið naumur. Við vissum að það yrði ekki auðvelt að koma til til Búkarest til þess að vinna. Við fengjum ekkert gefins,“ sagði Óskar Bjarni sem var ánægður með leik Vals lengst af fyrri hálfleiksins. Síðari hálfleikur var langtum síðri, ekki síst út frá varnarhliðinni en Valur fékk á sig 21 mark.

„Seinni hálfleikur var harla óvenjulegur af okkar hálfu. Við fengum á okkur 21 mark, mörg þeirra afar ódýr.“

Mesta basl undir lokin

„Ég hélt á tímabili að við myndum rúlla yfir þá, svo mikill var munurinn. En því miður þá gekk forskotið okkur úr greipum. Við lentum í mesta brasi undir lokin og erum hreinlega þakklátir fyrir að vinna,“ sagði Óskar um þær miklu sveiflur sem voru í leiknum.

Úrslit annarra leikja í 8-liða úrslitum:
FTC (Ferencváros) – Tatran Presov 32:29.
Olympiacos – MRK Krka 31:26.
CS Minaur Baia Mare – Bregenz 37:31.
Sigurliðið um rimmu Vals og Steaua mætir sigurliðinu úr viðureign CS Minaur Baia Mare og Bregenz Handball.

Valur náði til að mynda sex marka forskoti í fyrri hálfleik, 13:7, og var með fimm marka forystu, 28:23, og að því er virtist með tögl og hagldir þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Mörg afar ódýr mörk

„Seinni hálfleikur var harla óvenjulegur af okkar hálfu. Við fengum á okkur 21 mark, mörg þeirra afar ódýr. Síðari hálfleikur var bara alls ekki nógu beittur af okkar hálfu,“ sagði Óskar Bjarni.

Mikil spenna var á síðustu mínútunum eftir að Steaua-mönnum tókst að jafna metin í fyrsta sinn, 30:30. „Okkur tókst að vinna og halda út því Rúmenar áttu síðustu sóknina og gátu þar af leiðandi jafnað. Úr því sem komið var sterkt að fá ekki á okkur mark.

Ljóst er að við verðum að gera mikið betur í síðari leiknum, ekki síst í vörninni auk fleiri atriða,“ sagði Óskar Bjarni.
Valsliðið fer ekki frá Búkarest fyrr en í hádeginu á morgun og lendir ekki á Keflavíkurflugvelli fyrr en aðfaranótt þriðjudagsins.

Á miðvikudagskvöld er leikur við Gróttu í Olísdeildinni áður en undirbúningur fyrir síðari leikinn við Steaua hefst á fimmtudaginn.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -