„Ég þekki fyrst og fremst til þeirra sem leika með þýsku félagsliðunum. Dejan Milosavljev markvörður hefur verið sá besti í þýsku deildinni í vetur. Mijajlo Marsenic er einn af betri línumönnum deildarinnar. Þetta eru mjög góðir leikmenn,“ sagði Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun áður en æfing landsliðsins hófst.
„Ég er samt á þeirri skoðun að við erum með betra lið en Serbar. Ef við náum okkar leik þá eigum við vinna,“ sagði Viggó ennfremur.
„Serbar leika mjög góða vörn og hafa tvo fína markmenn. Sóknarleikurinn er síðri og ég tel okkur eiga að ráða við þá, að minnsta kosti sýnist mér það af þeim upptökum af leikjum sem við erum með. Ef við spilum góða vörn og náum hröðum sóknum þá er ég bara bjartsýnn,“ sagði Viggó Kristjánsson.
Lengri hljóðritaða útgáfu af viðtalinu við Viggó er að finna hér fyrir neðan.
EM í handknattleik karla hófst 10. janúar í Düsseldorf í Þýskalandi og stendur til 28. janúar. Leikir Íslands í C-riðli EM í München: 12.jan.: Ísland – Serbía, kl. 17. 14.jan.: Ísland – Svartfj.land, kl. 17. 16.jan.: Ísland – Ungv.land, kl. 19.30.