„Leikurinn leggst bara vel í okkur. Við erum orðnir verulega spenntir,“ sagði Símon Michael Guðjónsson vinstri hornamaður U21 árs landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í Berlín þar sem íslensku piltarnir mæta portúgölskum jafnöldrum sínum í átta liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik í dag. Flautað verður til leiks klukkan 13.45.
Viðureignin verður í textalýsingu og streymi á handbolti.is.
Ekki í undanúrslitum í 30 ár
Sigurliðið leikur til undanúrslita á heimsmeistaramótinu á laugardaginn. Íslenskt landslið hefur ekki komist í undanúrslit á heimsmeistaramóti 21 árs landsliða í 30 ár. Tapliðið verður þó alls ekki úr leik. Það keppir um sæti fimm til átta á laugardag og á sunnudag.
„Það verður gríðarlega gaman að taka þátt í þessum leik í frábærri höll með fullt af áhorfendum í frábærri stemningu. Það ríkir fyrst og fremst eftirvænting hjá okkur,“ sagði Símon Michael sem eins og margir í hópnum er orðinn vel sjóaður eftir að hafa tekið þátt í stórmótum árlega síðustu sumur.
Mjög gott lið
„Portúgölsku leikmennirnir eru snöggir og góðir fintarar, meiri hraði í þeim í samanburði við Serba og Grikki sem við höfum mætt fyrr á mótinu. Við höfum farið vel yfir leiki Portúgala í mótinu og erum eins vel búnir undir leikinn og hægt er. Þetta er mjög gott lið,“ sagði Símon Michael sem lét ekki teyma sig í vitleysu þegar hann var spurður hvort hann dreymdi um sæti í undanúrslitum. „Það er bara gamli góði frasinn, einn leikur í einu,“ sagði Símon Michael Guðjónsson og glotti við tönn um leið og hann gekk áleiðis út í rútu sem flutti leikmenn íslenska landsliðsins frá æfingu í Max Schmeling Halle til kvöldverðar á hóteli í austurhluta Berlínar.
HMU21: Dagskrá og úrslit síðustu leikja mótsins
Unnið fjóra – tapað einum
Þess má geta að lokum að portúgalska landsliðið hefur unnið fjóra leiki en tapað einum á HM til þessa. Portúgal tapaði fyrir Færeyjum í síðari umferð milliriðlakeppninnar, 27:19. Hvorugt liðið stillti upp sinni vöskustu sveit í þeirra viðureign.
Úrslit leikja Portúgals á HM til þessa:
Kosta Ríka – Portúgal 21:52 (12:26).
Portúgal – Brasilía 27:19 (13:11).
Portúgal – Kúveit 35:21 (18:11).
Portúgal – Spánn 33:31 (19:20).
Portúgal – Færeyjar 19:27 (10:15).
Portúgalska landsliðið lék til úrslita á EM 20 ára landsliða fyrir ári og tapaði með einu marki fyrir grönnum sínum, Spánverjum.