- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Við getum ekki annað en brosað eftir þennan leik

- Auglýsing -


„Þetta var mikilvægur sigur og afar sætur,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA við handbolta.is í Skógarseli síðdegis eftir að KA vann mikilvægan sigur á ÍR, 39:34, í neðri hluta Olísdeildar karla í handknattleik. Með sigrinum fjarlægðist KA aðeins liðin í allra neðstu sætunum um leið og liðið krækti í fyrsta vinninginn á útivelli á leiktíðinni.

Vorum klókari

„ÍR-ingar eru með skemmtilegt lið sem leikur á háu tempói og Bjarni náði miklu úr liðinu. Hinsvegar finnst mér stundum vanta klókindi sem mér fannst við aftur á móti hafa í dag,“ sagði Halldór Stefán og benti m.a. á kafla í fyrri hálfleik þegar KA-liðið komst loksins yfir. „Þá drógum við aðeins úr hraðanum. Til viðbótar kom kafli snemma í síðari hálfleik þegar við skoruðum fjögur eða fimm mörk eftir hraðaupphlaup sem tryggði okkur nánast sigurinn,“ sagði Halldór Stefán.

Þjálfarinn segir að eftir erfiða mánuði í upphafi leiktíðar þá hafi KA-liðið leikið betur þegar á tímabilið hafi liðið og krækt í mikilvæg stig á heimavelli.

„Við vorum flottir í dag. Ég er bara þokkalega ánægður með spilamennsku okkar upp á síðkastið, ekki síst á heimavelli þar sem við erum til alls líklegir. Sigurinn í dag er sá fyrsti á útivelli sem er kærkominn áfangi. Við getum ekki annað en brosað eftir þennan leik,“ sagði Halldór Stefán.

Beðið eftir Bjarna Ófeigi

Bjarni Ófeigur Valdimarsson hefur ekkert leikið með KA síðan í desember vegna meiðsla í il auk þess sem Bruno Bernard markvörður er ekki á skýrslu. Bruno er að jafna sig eftir lítilsháttar aðgerð í desember. Halldór Stefán segir óvissu ríkja um hvenær Bjarni Ófeigur mætir til leiks aftur. Það sé spurning um daga, vonandi.

„Við þurfum að prófa Bjarna á næstu dögum. Ef hann verður klár þá er það bara flott ef bakslag verður þá getur hann verið lengur frá. Ég ætla að vera svo bjartsýnn að reikna með að hann verði klár í slaginn í næsta eða þar næsta leik,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson þjálfari KA í samtali við handbolta.is.

Lengra viðtal við Halldór Stefán er að finna í myndskeiði hér fyrir ofan.

Sjá einnig: Fyrsti sigur KA á útivelli – lögðu ÍR í markaleik

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -