„Ég tel okkur eiga mjög góða möguleika,“ segir Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals um verkefnið sem Íslandsmeistararnir standa frammi fyrir á morgun, sunnudag, þegar Valur mætir slóvakíska liðinu MSK IUVENTA Michalovce í síðari undanúrslitaleik Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik í N1-höllinni á Hlíðarenda. Viðureignin hefst klukkan 17.30.
Valur tapaði fyrri viðureigninni í Michalovce, 25:23, á sunnudaginn var og þarf þar af leiðandi á þriggja marka sigri að halda á morgun til þess að leika fyrst íslenskra kvennaliða í úrslitum Evrópukeppni félagsliða.
„Fyrri hálfleikurinn ytra fór í að finna taktinn. Við misstum taktinn og einbeitingu þegar leið á fyrri hálfleik,“ segir Thea en Valur var mest sjö mörkum undir á upphafsmínútum síðari hálfleiks, 15:8.
MSK IUVENTA Michalovce lék til úrslita í Evrópubikarkeppninni síðasta vor en beið lægri hlut.
„Við sýndum það þegar kom fram í síðari hálfleik með því jafna metin að við hefðum getað verið í öðruvísi leik,“ segir Thea en Valur vann upp sjö marka forskot og jafnaði, 22:22, þegar skammt var til leiksloka. Frammistaðan í síðari hálfleik undirstrikaði að Valsliðið getur snúið við taflinu.
Möguleikarnir eru á heimavelli
„Núna eru við komnar á heimavöllinn okkar með okkar fólk í kringum okkur svo ég tel að möguleikarnir séu okkar megin þrátt fyrir að tveggja marka munur sé þeim í hag. Leikurinn verður krefjandi en ég hef fulla trú á að við getum snúið við taflinu,“ segir Thea Imani sem bætir við að mikil löngun sé fyrir hendi innan Valsliðsins að brjóta blað og komast í úrslitin. Hjallinn sé sannarlega ekki óyfirstiganlegur.
Í hinni viðureign undanúrslita Evrópbikarkeppninnar vann Conservas Orbe Zendal Bm Porrino frá Spáni liðsmenn tékkneska liðið Hazena Kynzvart, 31:28, í Porrino (nágrenni við Vigo) á Spáni. Hazena Kynzvart, sem vann Hauka í átta liða úrslitum var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13. Síðari leikurinn verður í Cheb í Tékklandi í dag.
Erum allar á sömu blaðsíðu
„Það væri ótrúlega gaman að komast í úrslit Evrópubikarsins. Við erum allar á sömu blaðsíðu að við bæði getum og viljum vinna og komast í úrslitaleikina,“ segir Thea Imani Sturludóttir leikmaður Vals og íslenska landsliðsins sem hvetur allt handknattleiksfólk til að mæta í N1-höllina á morgun fyrir klukkan 17.30.
Lengra viðtal við Theu Imani er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Sjá einnig: ÍBV og Valur komust í undanúrslit fyrir tveimur áratugum
(beðist er velvirðingar á ræskingu fréttamanns í miðju viðtali).
Síðari viðureign Vals og slóvakísku meistaranna MSK IUVENTA Michalovc fer fram í N1-höllinni á Hlíðarenda á morgun, sunnudag. Flautað verður til leiks klukkan 17.30.
Rétt er að hvetja handknattleiksáhugafólk til þess að fjölmenna á Hlíðarenda á sunnudaginn og styðja Valsliðið til sigurs. Íslenskt kvennalið hefur aldrei leikið til úrslita í Evrópukeppni félagsliða.