„Ég vil hvetja allt handknattleiksáhugafólk til þess að fjölmenna á leikinn. Umgjörðin verður frábær enda býr Valur yfir viðamikilli reynslu af því að standa myndarlega að Evrópuleikjum og keyra upp alvöru stemningu og vera með flottan viðburð í N1-höllinni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals í handknattleik kvenna sem mætir sænska liðinu Kristianstad í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í dag.
Flautað verður til leiks klukkan 16.30. Síðari leikurinn fer fram í Kristianstad eftir viku. Góð úrslit í dag mun gefa Valsliðinu byr í seglin við að komast í 16-liða úrslit keppninnar.
Kristianstad vann hollenska liðið Westfriesland SEW samanlagt með 19 marka mun, 67:48, heima og að heiman í 64-liða úrslitum.
Á sama tíma hafði Valur betur á móti Zalgiris Kaunas frá Litáen í tveimur leikjum á útivelli, 65:45.
Tvær íslenskar handknattleikskonur leika með Kristianstad, Berta Rut Harðardóttir og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir en sú síðarnefnda er landsliðskona.
„Fyrir dyrum stendur frábær handboltaleikur með góðum liðum. Við lofum alvöru leik og biðlum til fólks að taka þátt leiknum með okkur, styðja Valsstelpurnar sem hafa farið vel af stað í deildinni og sjá um leið sænska liðið sem hefur á að skipa tveimur íslenskum leikmönnum,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslands- og bikarmeistara Vals.
Evrópubikarkeppni kvenna – fréttasíða.