Íslenska landsliðið átti við ofurefli að etja í Scandinavium í kvöld þegar liðið mætti Evrópumeisturum Svía sem fóru með sigur úr býtum, 35:30, eftir að hafa verið marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:16.
Við tapið dofnaði verulega yfir möguleikum íslenska landsliðsins á að ná öðru sæti riðilsins og fanga þar með sæti í átta liða úrslitunum. Til þess verður Ungverjaland að tapa fyrir Grænhöfðaeyjum og Portúgal að tapa að minnsta kosti öðru stiginu í viðureign sinni við Svíþjóð. Um leið verður íslenska landsliðið að vinna Brasilíu á sunnudaginn í leik sem hefst klukkan 17 á sunnudaginn.
Mjög er farið að flísast úr íslenska hópnum. Aron Pálmarsson tók ekkert þátt í leiknum í kvöld vegna tognunar í kálfa. Auk þess virðist Ómar Ingi Magnússon ekki vera upp á sitt besta og hefur reyndar ekki verið í allra síðustu leikjum. Hvað svo sem það er sem hann hrjáir þá er Ómar Ingi ekki upp á sitt besta um þessar mundir.
HM 2023 – Milliriðlar, leikjadagskrá, staðan
Svíar byrjuðu leikinn betur. Þeir áttu nokkuð greiða leið í gegnum vörn íslenska liðsins auk þess sem skrekkur virtist í okkar mönnum sem náðu á tíðum ekki að nýta ágæt færi. Íslensku piltarnir unnu sig afar vel inn í leikinn. Á 15 mínútna kafla sneru þeir leiknum sér í hag. Varnarleikurinn þéttist og um leið skiluðu hraðaupphlaup sér og mörk eftir seinni bylgju. Frá 11. mínútu og fram á 26. skoraði íslenska liðið 10 mörk en fékk á sig fjögur. Arnar Freyr Arnarsson kom Íslandi þremur mörkum yfir, 15:12. Rétt áður varði Viktor Gísli Hallgrímsson vítakast sem varð enn til að kæta fjölmennan og vaskan flokk stuðningsmanna íslenska landsliðsins.
Síðustu mínútur hálfleiksins voru hins vegar ekki nógu góðar þrjár sóknir enduðu illa og Svíar gengu á lagið og jöfnuðu metin og komust marki yfir, 17:16. Gísli Þorgeir Kristjánsson var reyndur nærri búinn að jafna metin með síðasta skoti fyrri hálfleiks.
Eins og í fyrri hálfleik þá byrjaði íslenska liðið illa í síðari hálfleik. Það lenti fljótlega fjórum mörkum undir, 20:16. Segja má að íslenska liðinu hafi aldrei tekist að brúa bilið. Það var í eltingaleik til leiksloka. Ekki auðveldaði það eltingarleikinn að Andreas Palinka fór á kostum í markinu, ekki síst kunni hann vel að verja frá íslenskum leikmönnunum úr opnum færum.
Mörk Íslands: Bjarki Már Elísson 8/2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 5, Kristján Örn Kristjánsson, Donni, 5, Elliði Snær Viðarsson 3, Arnar Freyr Arnarsson 2, Janus Daði Smárason 2, Ómar Ingi Magnússon 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Óðinn Þór Ríkharðsson 1.
Varin skot: Viktor Gísli Hallgrímsson 7/1, 22,6%, Björgvin Páll Gústavsson 0.
Mörk Svíþjóðar: Lucas Pellas 8/2, Niclas Ekberg 6, Jim Gottfridsson 5, Fleix Claar 4, Albin Lagergren 3, Erik Johansson 2, Oscar Bergendahl 2, Joathan Garlsborgard 2, Lukas Sandell 1, Max Darj 1.
Varin skot: Andreas Palicka 11, 39,3%, Tobias Thulin 5, 27,8%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.