Eins og við mátti búast var við ramman reip að draga hjá Elínu Jónu Þorsteinsdóttur, Steinunni Hansdóttur og samherjum í Vendsyssel í kvöld þegar þær fengu Danmerkurmeistara Esbjerg í heimsókn í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik. Liðin eru hvort á sínum enda stöðutöflunnar. Esbjerg er efst og hafði aðeins tapað einu stigi fyrir leikinn í kvöld en Vendsyssel neðst með eitt stig.
Yfirburðir Esbjerg-liðsins komu fljótt í ljós. Það hafði tíu marka forskot í hálfleik, 16:6, og vann að lokum með 19 marka mun, 34:15.
Steinunn skoraði eitt mark í tveimur skotum fyrir lið Vendsyssel. Elín Jóna gerði hvað hún gat í markinu og varði alls sjö skot, sem var 20% hlutfallsmarkvarsla.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni.