Patrekur Jóhannesson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, segist ekki ætla að sækja um frestun á leikjum liðsins sem fram eiga að fara í Olísdeildinni föstudaginn 30. apríl gegn FH og mánudaginn 3. maí á móti ÍR eftir að Tandri Már Konráðsson, fyrirliði Stjörnunnar var kallaður inn í landsliðið í morgun. Stjarnan á rétt á að sækja um frestun vegna fjarveru landsliðsmanns.
Patrekur segir það ekki koma til greina að sækja um frestun. Stjarnan haldi sínu striki og mæti óhikað til leiks gegn FH á föstudagskvöldið í Kaplakrika. „Við spilum á föstudaginn,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari við Stjörnunnar, við handbolta.is fyrir stundu.
Framarar ætla einnig að leika sína leiki þrátt fyrir fjarveru tveggja færeyskra landsliðsmanna. Að minnsta kosti hefur leikjum Fram-liðsins 29. apríl gegn Val og Þór Akureyri 3. maí ekki verið frestað samkvæmt upplýsingum á vef Handknattleikssambands Íslands.