- Auglýsing -
- Auglýsing -

Við tókum hárrétta ákvörðun – fara rakleitt upp aftur

Katla María Magnúdóttir, leikmaður Selfoss og landsliðskona í handknattleik. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

„Tímabilið hefur verið skemmtilegt. Það hefur verið gaman að geta sýnt fólki hversu mikla vinnu við höfum lagt á okkur til þess að ná þessum árangri,“ segir Katla María Magnúsdóttir leikmaður handknattleiksliðs Selfoss sem á dögunm tryggði sér sæti í Olísdeild kvenna með yfirburðasigri í Grill 66-deild kvenna. Enn eru tvær umferðir eftir en þegar hefur Selfossliðið fengið sigurlaun sín, slíkir eru yfirburðirnir.

Átján sigurleikir

Auk þess er Selfoss komið í undanúrslit Poweradebikarsins og mætir Stjörnunni í undanúrslitum eftir rúma viku. Átján leikir í deild og bikarkeppninni eru að baki og hefur hver og einn þeirra unnist.

Við tókum þá ákvörðun eftir tapið í umspilinu í fyrra að gefast ekki upp. Byrjuðum strax að æfa af krafti með það eitt að markmiði að fara strax upp aftur.

Selfoss átti sæti í Olísdeild kvenna keppnistímabilið 2022/2023 en féll á síðasta vori eftir æsispennandi fimm leikja rimmu við ÍR um keppnisrétt í deildinni. Fallið var leikmönnum, þjálfurum, stjórnendum deildarinnar á Selfossi og stuðningsmönnum sár vonbrigði. Í stað þess að láta hug falla sneru allir bökum saman með það eitt að markmiði að fara undireins aftur upp í Olísdeildina. Leikmenn héldu hópinn og ákváðu að ganga í takt.

Leikmenn, þjálfara og stuðningsmenn handknattleiksliðs Selfoss sem leikur í Olísdeildinni á næstu leiktíð. Mynd/HSÍ

Byrjuðum strax

„Við tókum þá ákvörðun eftir tapið í umspilinu í fyrra að gefast ekki upp. Byrjuðum strax að æfa af krafti með það eitt að markmiði að fara strax upp aftur. Við höfum sýnt okkur og öðrum að við tókum rétta ákvörðun,“ segir Katla María sem er markahæsti leikmaður Grill 66-deildarinnar með 131 mark. Hún var næst markahæst í Olísdeildinni í fyrra.

Velti mörgu fyrir mér

„Vonbrigðin eftir umspilið voru mikil. Það var mikið áfall fyrir að vera komnar í þá stöðu sem við vorum í. Ég get alveg viðurkennt að ég velti mörgu fyrir mér, hausinn fór á fullt. Allir höfðu skoðanir á stöðunni. Þegar öllu var á botninn hvolft þá tók ég ákvörðun sem ég taldi vera mér sjálfri fyrir bestu, það er að vera áfram á Selfossi, og eftir henni sé ég ekki,“ segir Katla María sem hefur verið með allra bestu leikmönnum liðsins og átt um leið sæti í landsliðinu, fór m.a. út á HM undir árslok.

Undanúrslitin eru framundan

Katla María segir að á yfirstandandi keppnistímabili hafi myndast mjög góð liðsheild á Selfoss. „Ég er virkilega spennt fyrir næsta keppnistímabili í Olísdeildinni með þessum hóp.
Við erum á góðri siglingu um þessar mundir og bíðum með mikilli eftirvæntingu eftir að mæta til leiks í undanúrslitum bikarsins í næstu viku. Ég hef mikla trú á liðinu,“ sagði Katla María Magnúsdóttir leikmaður Selfoss og landsliðskona.

Áður en að undanúrslitum Poweradebikarsins kemur í næstu viku verður Katla María í eldlínunni með íslenska landsliðinu á miðvikudaginn á Ásvöllum gegn sænska landsliðinu í undankeppni Evrópumótsins. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Frítt verður á leikinn í boði Arion banka.

Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -