„Fyrst og fremst lagði frábær sóknarleikur grunn að sigrinum auk þess sem við náðum tveimur góðum köflum í hvorum hálfleik í vörninni. Á þeim köflum tókst okkur að ná forskoti,“ segir Einar Jónsson þjálfari Fram í samtali við handbolta.is eftir sigurinn á Gróttu, 38:33, í 14. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Lambhagahöllinni. Með sigrinum heldur Fram áfram veru sinni í þriðja sæti deildarinnar, skammt á eftir FH og Aftureldingu.
Loðir við leikina
„Það loðir við leikina í Lambhagahöllinni að það er mikið skorað í þeim og þannig viljum við leika, það er að skora mikið. Það er okkar leikur. Auðvitað vildi ég fá betri varnarleik og þar af leiðandi betri markvörslu en það er ekki á allt kosið,“ segir Einar ennfremur sem er ánægður með stöðu Fram í deildinni nú þegar hlé verður á leikjum fram í byrjun febrúar. Fram á einn leik eftir gegn Val í Poweradebikarnum á miðvikudagskvöld á heimavelli. Einar segir allt verða lagt í sölurnar í þeirri viðureign.
Reynir að alvöru á okkur
„Við getum verið ánægðir með stöðu okkar. Auðvitað getum við litið til baka og vilja gera betur í einhverjum leikjanna. Hinsvegar hefur frammistaðan heilt yfir verð mjög góð. Við erum í þriðja sæti deildarinnar, stutt á eftir toppliðunum.
Stærsti leikur tímabilsins til þessa verður gegn Val á miðvikudaginn. Þá reynir fyrir alvöru á okkur.“
Fyrir breidd fyrir hendi
Mikil breidd er í leikmannahópi Fram. Maður virðist alltaf koma í manns stað og ljóst að mikill efniviður er fyrir hendi. Spurður um það sagði Einar það ekki vera launungamál að breiddin sé góð og liðið njóti e.t.v. þeirra reynslu sem ungir leikmenn fengu á síðustu leiktíð þegar meiðsli herjuðu á marga leikmenn. Þá reyndi á þá yngri sem öðluðust reynslu.
„Við erum búnir að búa til góða breidd, alveg klárlega. Á því leikur enginn vafi,“ segir Einar Jónsson þjálfari karlaliðs Fram.
Lengra myndskeiðsviðtal er við Einar í þessari grein.