„Mér fannst vanta allt vanta. Við vorum ekki nógu beittir og orkustigið ekki rétt. Við vorum eiginlega bara lélegir,“ sagði Róbert Aron Hostert hinn reyndi leikmaður Vals eftir fjögurra marka tap fyrir Fram í fyrsta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í N1-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.
„Við skoruðum mörg mörk en varnarlega voru við slakir. Náðum varla að klukka leikmenn Fram. Þá sjaldan okkur tókst það þá fengum við á okkur tvær mínútur. Við verðum að fara vel yfir leikinn. Kannski þarf einbeitingin að vera meiri á okkur en á dómgæslunni,“ sagði Róbert Aron sem er staðráðinn í að jafna metin í næstu viðureign liðanna í Lambhagahöllinni á mánudaginn.
„Við vinnum ekki handboltaleiki ef við ætlum að spila fleiri svona leiki. Enginn okkar getur verið þreyttur eftir þennan leik,“ sagði Róbert Aron Hostert leikmaður Vals í samtali við handbolta.is á Hlíðarenda.
Lengra viðtal við Róbert Aron er í myndskeiði hér fyrir ofan.
Framarar fóru á kostum og eru komnir með yfirhöndina