Ekkert verður af því að KA og ÍBV leiði saman hesta sína í Olísdeild karla í handknattleik í KA-heimilinu í dag eins og til stóð. Ekki er það kórónuveiran sem kemur í veg fyrir að liðin mætist. Ástæðan er veðrið sem setur stórt strik í reikninginn að þessu sinni, eftir því sem fram kemur í tilkynningu sem var að berast frá mótanefnd HSÍ, rétt fyrir hádegið.
Ófært er norður og komast Eyjamenn því hvorki lönd né strönd eftir því sem næst verður komist, alltént ekki í tíma. Um þessar mundir gengur leiðindaveður yfir landið með talsverðum vindi, ofankomu og skafrenningi. Nýr leikdagur verður ákveðinn svo fljótt sem auðið verður.
Þar með er ljóst að ekkert verður leikið í Olísdeild karla í dag eins og til stóð. Öðrum leiknum var frestað í gær vegna veirunnar og hinum nú vegna veðurs.
Vonir standa til að eftirtaldir leikir geti farið fram í dag.
Olísdeild kvenna:
Varmá: Afturelding – Valur, kl. 13.30 – sýndur á Aftureldingtv.
Ásvellir: Haukar – HK, kl. 18 – sýndur á Stöð2Sport.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna má sjá hér.
Grill66-deild kvenna:
Dalhús: Fjölnir/Fylkir – Víkingur, kl. 16.
Stöðu og næstu leiki í Grill66-deild kvenna má sjá hér.
Coca Cola-bikar karla, 16-liða úrslit:
Kórinn: ÍBV2 – Þór Ak., kl. 15.
Leikmenn Þórs komu suður í gær og léku við ungmennalið Aftureldingar í gærkvöld í Grill66-deild karla.