„Við erum að fara í mjög erfitt verkefni gegn Slóvenum. Það er mikill munur á liðunum sem eru í hópi þeirra bestu og hafa nánast verið á öllum stórmótum síðustu ár, eins og Slóvenum, og þeirra sem landsliðið var leika gegn í forkeppninni í síðasta mánuði,“ sagði Karen Knútsdóttir, fyrirliði landsliðsins og ein leikreyndasta handknattleikskona landsins þegar handbolti.is ræddi við hana fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Víkinni í gær.
Með æfingunni í gær var þráðurinn tekinn upp við undirbúning landsliðsins fyrir leikina tvo gegn Slóvenum í forkeppni heimsmeistaramótsins sem fram fara 17. og 21. apríl. Hér eftir verður æft einu sinni á dag þangað til farið verður út til Ljubljana þar sem fyrri viðureignin fer fram.
„Af þeim liðum sem við gátum dregist gegn var Slóvenía einn af betri kostunum. Við hefðum getað dregist gegn enn sterkari liðum eins og Rússlandi, Rúmeníu, Ungverjalandi, sem eru á meðal átta bestu. Slóvenar eru hinsvegar með hörkugott lið sem hefur nánast átt fast sæti á stórmótum um árabil þótt liðið hafi ekki verið í verðlaunabaráttu á mótunum,“ sagði Karen.
Verðum að draga lærdóm
Hún telur nauðsynlegt að draga lærdóm af leikjunum tveimur við Spánverja í undankeppni HM fyrir tveimur árum þegar íslenska liðð fékk slæman skell í fyrri leiknum ytra þegar einvígið var svo gott sem lokið í hálfleik þegar Spánverjar voru komnir með 14 marka forskot. „Við verðum að læra af þeirri reynslu þar sem nokkrar sem eru í liði okkar núna voru með í leikjunum við Spánverja.
Við viljum ná góðum úrslitum á útivelli í fyrri leiknum 17. apríl svo að möguleikar verði í stöðunni þegar að síðari leikurinn kemur hér heima fjórum dögum síðar. Leikurinn ytra verður algjör lykilleikur í þessu einvígi þar sem hvert mark mun skipta máli,“ sagði Karen.
Góður undirbúningstími
Landsliðið fékk undanþágu til æfinga fyrir leikina á sama tíma og æfingar félagsliða eru ekki svipur hjá sjón vegna takmarkana. Karen segir afar mikilvægt að hafa fengið undanþágu því hún gefi hópnum gott svigrúm til að stilla saman strengina. Nánast sé um stórmóta undirbúning að ræða.
„Stelpurnar eru nýkomnar úr ströngu verkefni þar sem íslenska liðið tryggði sér keppnisréttinn. Andinn er frábær innan liðsins, liðsheildin er orðin mjög góð. Það hefur orðið jákvæð og góð breyting. Allar erum við spenntar fyrir að leika handbolta og leggja okkur fram um að ná sem allra bestum árangri. Við verðum að nýta tímann vel til að fara yfir allt. Útlitið er gott og ekki verður hægt að kvarta yfir að undirbúningurinn verði ekki nægur. Það er eitthvað gott í loftinu sem við verðum að nýta til fulls,“ sagði Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik kvenna í samtali við handbolta.is í gær.