Viggó Kristjánsson skoraði átta mörk og gaf tvær stoðsendingar þegar lið hans HC Erlangen vann botnlið Potsdam, 26:23, í Berlín í gær í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Seltirningurinn var markahæstur í þessum fyrsta sigurleik HC Erlangen á árinu en liðið hefur átt á brattann að sækja alla leiktíðina.
Sigur Erlangen varð til þess að nú munar aðeins tveimur stigum á liðinu og Bietigheim sem situr í 16. og þriðja neðsta sæti deildarinnar. Auk þess á Erlangen leik til góða. Tvö lið falla úr þýsku 1. deildinni í vor. Flest lið deildarinnar eiga 10 til 11 leiki eftir.
Elmar hafði betur gegn Daníel Þór
Elmar Erlingsson og liðsfélagar í Nordhorn-Lingen unnu Balingen-Weilstetten, 28:26, í 2. deild þýska handknattleiksins í gær. Elmar skoraði þrjú mörk. Mágur hans, Daníel Þór Ingason skoraði eitt mark fyrir Balingen-Weilstetten sem áfram er í 4. sæti deildarinnar með 31 stig eftir 25 leiki.
Nordhorn-Lingen, sem Elmar leikur með, er í sjötta sæti með 27 stig.
Eintracht Hagen er í sjöunda sæti með 25 stig. Hagen lagði neðsta lið 2. deildar, HSG Konstanz, 39:30, á heimavelli. Hákon Daði Styrmisson er ekki byrjaður að leika á ný með Hagen eftir að hann sleit krossband í hné síðasta vor.
Stöðuna í 1. og 2. deild þýska handknattleiksins er að finna hér.