Víkingur varð annað liðið til þess að vinna andstæðing sinn í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik kvenna í kvöld og fylgja þar með Fram eftir sem vann Selfoss í gærkvöld í fyrsta leik umferðarinnar.
Víkingur lagði Fjölni, 26:19, í Safamýri eftir að hafa náð góðu forskoti í fyrri hálfleik. Staðan var 13:7 Víkingi í vil þegar fyrri 30 mínútur viðureignarinnar voru að baki.
Ekki síst var Víkingsliðið öflugt í síðari hluta fyrri hálfleiks þegar það skoraði fimm af síðustu sex mörkunum á síðustu sjö mínútunum áður en leiktíminn var úti. Þrátt fyrir þungan róður þá gafst Fjölnisliðið aldrei upp en forskotið sem myndast hafði var of mikið til þess að með góðu móti væri hægt að brúa bilið.
Víkingur og Fram eru þar með komin í átta liða úrslit Poweradebikarsins eins og Valur og Haukar sem sitja yfir í fyrstu umferð.
Annað kvöld fara fram þrjár viðureignir i 16-liða úrslitum:
KA/Þór – Stjarnan, kl. 17.30.
HK – ÍBV, kl. 18.
FH – Grótta, kl. 18.
Mörk Víkings: Auður Brynja Sölvadóttir 8, Díana Ágústsdóttir 4, Arnbjörg Bertha Kristjánsdóttir 3, Ída Bjarklind Magnúsdóttir 3, Ester Inga Ögmundsdóttir 2, Hafdís Shizuka Iura 2, Valgerður Elín Snorradóttir 2, Andrea Ósk Þorkelsdóttir 1, Rakel Sigmarsdóttir 1.
Varin skot: Signý Pála Pálsdóttir 13.
Mörk Fjölnis: Sólveig Ása Brynjarsdóttir 5, Eyrún Ósk Hjartardóttir 4, Sara Kristín Pedersen 4, Elsa Karen Sæmundsen 2, Telma Sól Bogadóttir 2, Emelía Ósk Aðalsteinsdóttir 1, Signý Harðardóttir 1.
Varin skot: Þyrí Erla Sigurðardóttir 12.