- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Víkingar voru mikið sterkari í fyrstu atlögu

Gunnar Valdimar Johnsen reyndist leikmönnum Fjölnis erfiður í fyrsta leiknum. Mynd/Þorgils G - Fjölnir, handbolti
- Auglýsing -

Víkingur byrjaði umspilskeppni Olísdeildar karla í handknattleik af krafti í Safamýri í kvöld fyrir framan nærri fullt hús áhorfenda með sjö marka sigri á Fjölni, 32:25, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:13.

Næsti leikur liðanna verður í Dalhúsum á föstudagskvöld en vinna þarf þrjá leiki til þess að öðlast keppnisrétt í Olísdeild karla á næstu leiktíð.


Fjölnismenn skoruðu þrjú fyrstu mörkin í leiknum og virtust ætla að koma Víkingum í opna skjöldu. Sú varð ekki raunin.

Leikmenn Víkings voru yfirvegaðir. Þeir jöfnuðu metin og komust fljótlega yfir. Varnarleikur liðsins var góður. Leikmenn Fjölnis voru neyddir í ýmsar aðgerðir sem lauk með að þeir töpuðu boltanum hvað eftir annað. Víkingur komst fimm mörkum yfir, 14:9, þegar skammt var til loka fyrri hálfleiks. Það forskot létu þeir ekki af hendi.

Segja má að leikmenn Víkings hafi farið langt með að tryggja sér sigurinn á upphafsmínútum síðari hálfleiks. Þeir skoruðu þrjú fyrstu mörkin eftir að hafa unnið boltann af leikmönnum Fjölnis á einfaldan hátt. Staðan var skyndilega orðin 21:13.

Víkingsliðið var of sterkt til þess að kasta þeirri stöðu frá sér. Mestur varð munurinn tíu mörk, skömmu fyrir leikslok, 32:22.


Víkingar voru einfaldlega mikið klárari í slaginn að þessu sinni. Varnarleikurinn var afar góður og síðan varði Sverrir Andrésson vel í markinu, lengst af.


Mjög margir áhorfendur voru á leiknum. Nánast var fullt hús og frábær stemning sem var Víkingi mjög til sóma. Virkilega gaman að vera vitni að því.


Mörk Víkings: Gunnar Valdimar Johnsen 7, Igor Mrsulja 5, Halldór Ingi Jónasson 4, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 4, Arnar Gauti Grettisson 3, Halldór Ingi Óskarsson 2, Agnar Ingi Rúnarsson 2, Guðjón Ágústsson 1, Brynjar Jökull Guðmundsson 1, Logi Ágústsson 1, Andri Berg Haraldsson 1, Styrmir Sigurðarson 1.
Varin skot: Sverrir Andrésson 11, Bjarki Garðarsson 1.

Mörk Fjölnis: Benedikt Marinó Herdísarson 6, Sigurður Örn Þorsteinsson 5, Alex Máni Oddnýjarson 3, Óðinn Freyr Heiðmarsson 2, Goði Ingvar Sveinsson 2, Björgvin Páll Rúnarsson 2, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1, Þorleifur Rafn Aðalsteinsson 1, Elvar Þór Ólafsson 1, Bernhard Snær Petersen 1, Viktor Berg Grétarsson 1.
Varin skot: Bergur Bjartmarsson 7, Andri Hansen 5, Ástgeir Rúnar Sigmarsson 1.

Handbolti.is var í Safamýri og fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -