Víkingar fögnuðu sæti í átta liða úrslitum Poweradebikar kvenna í handknattleik í kvöld. Víkingur vann Fjölni í spennandi viðureign í Safamýri, 24:23. Auður Brynja Sölvadóttir skoraði sigurmark Víkings þegar skammt var til leiksloka. Fjölnisliðið hafði þó tíma fyrir sókn en tókst ekki að færa sér hana í nyt. Sóknin endaði með aukakasti og skoti í höfuð varnarmanns Víkings.
Staðan var 12:8 fyrir Víkinga að loknum fyrri hálfleik. Þótt Fjölnisliðið hafi sótt í sig veðrið í síðari hálfleik náði það ekki að komast yfir.
Mörk Víkings: Auður Brynja Sölvadóttir 5, Hafdís Shizuka Iura 5, Valgerður Elín Snorradóttir 5, Arnbjörg Bertha Kristjánsdóttir 4, Sunna Katrín Hreinsdóttir 3, Andrea Ósk Þorkelsdóttir 1, Hildur Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Þyri Erla L Sigurðardóttir 7, Klaudia Katarzyna Kondras 2.
Mörk Fjölnis: Vera Pálsdóttir 7, Stefanía Ósk Engilbertsdóttir 5, Berglind Benediktsdóttir 4, Karólína Ósk Arndal Sigurlaugardóttir 3, Rósa Kristín Kemp 3, Sara Kristín Pedersen 1.
Varin skot: Signý Pála Pálsdóttir 10.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.





