Þótt lið Hvítu riddarana í Mosfellsbæ hafi sótt liðsauka á undanförnum dögum þá átti það akkúrat ekkert erindi í harðsnúið lið Víkings þegar liðin leiddu saman kappa sína í 32-liða úrslitum Poweradebikar karla í handknattleik að Varmá í kvöld. Víkingar unnu með 19 marka, 30:11, eftir að hafa verið 12:6 yfir þegar fyrri hálfleikur var að baki.
Sóknarleikurinn reyndist leikmönnum Hvíta riddarans þungur í skauti og t.d. skoraði liðið aðeins 2 mörk á fyrstu 27 mínútum síðari hálfleiks.
Meðal leikmanna sem rak á fjörur Hvíta riddarans fyrir leikinn í kvöld voru Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson, Böðvar Páll Ásgeirsson og Bjarki Lárusson.
Víkingur er þar með kominn í 16-liða úrslit Poweradebikarsins eins og Þór sem vann ÍBV2 í fyrrakvöld, 30:28. Hörður Ísafirði bættist einnig í hóp liðanna í 16-liða úrslitum eftir að Víðir Garði gaf viðureign sína við Ísafjarðarliðið.
Mörk Hvíta riddarans: Davíð Hlíðdal Svansson 3, Eyþór Vestmann 2, Gunnar Kristinn Malmquist Þórsson 2, Gunnar Pétur Haraldsson 1, Ingi Hrafn Sigurðsson 2, Bjarki Lárusson 1.
Varin skot: Smári Guðfinnsson 9, Björgvin Franz Björgvinsson 3.
Mörk Víkings: Kristófer Snær Þorgeirsson 5, Ásgeir Snær Vignisson 4, Sigurður Páll Matthíasson 4, Kristján Helgi Tómasson 4, Halldór Ingi Óskarsson 3, Igor Mrsulja 2, Páll Þór Kolbeins 2, Þorfinnur Máni Björnsson 2, Bjarki Garðarsson 1, Nökkvi Gunnarsson 1, Halldór Ingi Jónasson 1, Benedikt Emil Aðalsteinsson 1.
Varin skot: Bjarki Garðarsson 16, Heiðar Snær Tómasson 8.