Handknattleiksdeild Víkings hefur gert tveggja ára samning við hinn 27 ára markmann, Daníel Andra Valtýsson sem síðast lék með Gróttu. Þetta er eitt skrefið í að styrkja Víkingsliðið fyrir átökin sem taka við í Olísdeildinni í september. Víkingur endurheimti sæti sitt í deildinni í vor eftir æsispennandi umspilsleiki við Fjölni.
Daníel Andri er uppalinn í Val. Hann lék um skeið í Noregi með Haugaland og hefur undanfarin ár leikið með Gróttu. Daníel var með 32% meðalmarkvörslu í Olísdeildinni á nýliðnu tímabili í sem skilaði honum sjöttu bestu hlutfallsmarkvörslu allra markmanna.
„Daníel kemur til með að styðja og styrkja markmannsteymið okkar í heilbrigðri samkeppni enda reynslumikill og frábær markmaður. Við bjóðum Daníel hjartanlega velkomin í Víking,“ segir í tilkynningu Víkings.
Enn ein blóðtakan
Daníel Andri er enn ein blóðtakan sem orðið hefur hjá Gróttu á síðustu vikum. Auk hans hafa Andri Þór Helgason, Birgir Steinn Jónsson og Akimasa Abe róið á ný mið. Þorgeir Bjarki Davíðsson er hættur og Theis Koch Søndergård er farnir til Danmerkur eftir árs veru.