Viktor Gísli Hallgrímsson átti stórleik þegar Barcelona vann stórsigur á brasilíska meistaraliðinu Handebol Taubate, 41:22, í fyrstu umferð riðlakeppni heimsmeistaramóts félagsliða í Kaíró í Egyptalandi. Viktor Gísli stóð í marki Barcelona allan leikinn og varði 19 skot, þar af eitt vítakast, 46% hlutfallsmarkvarsla.
Bjarki skoraði átta mörk
Bjarki Már Elísson skoraði átta mörk þegar One Veszprém vann einnig auðveldan sigur á Sydney University, 51:15, á heimsmeistaramótinu í dag. Bjarki Már skoraði tvö marka sinna úr vítaköstum. Hugo Descat, hinn vinstri hornamaður Veszprém var markahæstur með níu mörk.
One Veszprém fær væntanlega meiri mótspyrnu á morgun þegar liðið mætir Afríkumeisturum Al Ahly. Barcelona leikur við Al Zamalek á morgun.
Fyrr í dag vann SC Magdeburg bandaríska liðið California Eagles, 50:20. Nánar er sagt frá þeim leik í greininni hér fyrir neðan.