Viktor Gísli Hallgrímsson, landsliðsmarkvörður, varð í dag danskur bikarmeistari í handknattleik með liði sínu, GOG frá Fjóni.
GOG vann Team Tvis Holstebro, TTH, 30:28, í úrslitaleik bikarkeppninnar eftir að hafa verið undir í hálfleik 16:15. Leikurinn var hnífjafn og spennandi frá upphafi til enda.
Óðinn Þór Ríkharðsson leikur með TTH. Honum tókst ekki að skora í leiknum framhjá Viktori Gísla.
Þetta er í tíunda skipti en í fyrsta sinn í 15 ár sem GOG vinnur danska bikarinn í karlaflokki. Liðin er 13 ár síðan GOG vann síðast til gullverðlauna í dönskum handknattleik í karlaflokki en þá vann lið félagsins danska meistaratitilinn.
Um er að ræða bikarkeppnina fyrir leiktíðina 2019/2020. Til stóð að leikið yrði til undanúrslita og úrslita í mars en vegna kórónuveirufaraldursins var leikjunum slegið á frest þar til um þessa helgi. Reyndar stóð til um tíma að fella keppnina niður.
Undanúrslitaleikirnir í gær og úrslitaleikurinn í dag fór fram í Holstebro á Jótlandi.
Leiknum var að ljúka en handbolti.is mun flytja frekari fréttir af frammistöðu Íslendinganna í úrslitaleiknum eftir því sem fregnir berast.