Viktor Gísli Hallgrímsson fór vel af stað með nýjum samherjum sínum í Barcelona í fyrsta leiknum í Meistaradeildar Evrópu í gærkvöld. Barcelona lagði danska liðið GOG, sem Viktor Gísli varði markið hjá frá 2019 til 2022, 37:32, eftir að hafa verið 11 mörkum yfir í hálfleik, 25:14. Leikurinn fór fram á Palau Blaugrana, heimavelli Katalóníuliðsins. Liðið gaf tóninn strax í byrjun með því að komast yfir, 4:0.
Viktor Gísli stóð á milli stanganna hjá Barcelona í síðari hálfleik og varði 8 skot, 31%. Daninn Emil Nilsen var á vaktinni í fyrri hálfleik og varði 9 skot.
Daniel Fernández var markahæstur hjá Barcelona með sex mörk. Jonathan Carlsbogard og Ludovic Fabregas skoruðu fimm mörk í hvor. Fyrirliði Barcelona, Frakkinn Dika Mem, lék ekki með vegna meiðsla. Hann verður frá keppni í þrjár til fjórar vikur vegna tognunar í læri.
Færeyingurinn Óli Mittún var markahæstur hjá GOG með fimm mörk og tvær stoðsendingar í sínum fyrsta leik á ferlinum í Meistaradeildinni. Lasse Vilhelmsson skoraði einnig fimm mörk.

Áttu á brattann að sækja í Kielce
Íslendingaliðið Kolstad átti á brattann að sækja frá byrjun í heimsókn til pólska liðsins Industria Kielce og tapaði með 11 marka mun, 38:27. Pólska liðið var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 16:12.
Slóvenski markvörðurinn Klemen Ferlin fór hamförum í marki Kielce og varði 15 skot, 44%. M.a. varði Ferlin 10 skot í fyrri hálfleik, mörg úr opnum færum. Adam Morawski tók við keflinu þegar á leið síðari hálfleiks og varði einnig allt hvað af tók.
Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði þrjú mörk fyrir Kolstad. Sigvaldi Björn Guðjónsson skoraði tvisvar. Arnór Snær Óskarsson var í leikmannahópi Kolstad en kom lítið við sögu.
Aleks Vlah skoraði sjö mörk fyrir Kielce og Alex Dujshebaev skoraði fimm sinnum.
Fékk byr í seglin
Nicolej Krickau, nýr þjálfari Füchse Berlin, fékk byr í seglin í gærkvöld þegar liðið vann Nantes, 40:34, í Frakklandi. Þetta var fyrsti sigur Berlinarliðsins undir stjórn Krickau sem tók við þjálfun í síðustu viku eftir umdeilda uppstokkun.
Mathias Gidsel skoraði 10 mörk og gaf tvær stoðsendingar. Tim Freihöfer skoraði sjö mörk.
Gamli refurinn Valero Rivera skoraði sjö sinnum fyrir Nantes.