Viktor Gísli Hallgrímsson fór á kostum í marki Barcelona í gærkvöld þegar liðið vann stórsigur á Viveros Herol BM Nava, 45:25, á heimavelli í 9. umferð spænsku 1. deildarinnar. Viktor Gísli var í marki Barcelona verulegan hluta leiksins og varði 17 skot, 53%. Einnig átti hann tvær stoðsendingar. Hinn ungi markvörður Barcelona, Filip Saric, leysti Viktor Gísla af þegar á leikinn lauk og varði 6 skot, 40%.
Danski landsliðsmarkvörðurinn Emil Nielsen fékk frí að þessu sinni eftir stórleik gegn PSG í Meistaradeild Evrópu á miðvikudagskvöld.
Daniel Fernández Jiménez var óstöðvandi í liði Barelona og skoraði 14 mörk í 17 skotum.
Barcelona hefur 18 stig eftir leikina níu og er fjórum stigum á undan La Rioja. Viveros Herol BM Nava er á hinn bóginn í neðri hluta deildarinnar, 13. sæti af 16, með sex stig.



