Danski landsliðsmaðurinn Emil Jakobsen kom í veg fyrir fyrsta tap GOG í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn í handknattleik í kvöld. Hann jafnaði þá metin, 34:34, þegar skammt var til leiksloka í viðureign GOG og Bjerringbro/Silkeborg. Jakobsen skoraði alls níu mörk.
GOG heldur þar með þriggja stiga forskoti í efsta sæti í riðli eitt í 8-liða úrslitum dönsku úrvalsdeildarinnar. GOG er með sjö stig, Bjerrringbro/Silkeborg fjögur og SönderjyskE og Kolding hafa tvö stig hvort lið þegar þrjár umferðir eru að baki.
Viktor Gísli Hallgrímsson náði sér ekki á strik í marki GOG. Hann varði 3 skot og var í markinu í um helmingi leiktímans.
Elvar Örn Jónsson og félagar í Skjern unnu sinn fyrsta leik í úrslitakeppninni er þeir lögð Skanderborg á útivelli, 29:27. Elvar Örn skoraði tvö mörk og átti eina stoðsendingu.
Meistaralið Aalborg er efst í úrslitariðli tvö með sex stig, Holstebro hefur fimm stig, Skanderborg og Skjern hafa tvö stig hvort.
Þrjár umferðir eru eftir í báðum riðlum. Hlé verður gert á úrslitakeppninni fram yfir landsleikjavikuna sem framundan er.