Viktor Gísli Hallgrímsson tryggði GOG bæði stigin í torsóttum sigri liðsins í heimsókn sinni til Skanderborg Håndbold á Jótlandi, 29:28. Hann varði síðasta skot leiksins frá Mads Kalstrup þegar aðeins tvær sekúndur voru eftir af leiktímanum. GOG er þar með í efsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig að loknum 11 leikjum, er stigi á undan Aalborg Håndbold.
GOG var þremur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 14:11. Viktor Gísli varði 16 skot, sem lagði sig út á 36,3% hlutfallsmarkvörslu. Hann var í marki GOG frá upphafi til enda.
Sveinn tognaði og missti af leik
SönderjyskE, sem Sveinn Jóhannsson leikur með, náði að snúa við blaðinu eftir erfitt gengi í síðustu leikjum. SönderjyskE gerði sér lítið fyrir og skellti Bjerrinbro/Silkeborg, 32:24, á heimavelli. „Þetta var ótrúlega mikilvægur sigur,” sagð Sveinn í skilaboðum til handbolta.is eftir leikinn.
Með sigrinum lyfti SönderjyskE sér upp í áttunda sæti deildarinnar með 11 stig eftir 12 leiki. Bjerringbro/Silkeborg er í þriðja sæti með 16 stig. Tapið kom í veg fyrir að liðið blandaði sér í toppbaráttuna á milli GOG og Aalborg Håndbold.
Sveinn lék ekki með SönderjyskE í dag. „Ég fékk væga tognun í aftanvert læri í vikunni og á erfitt með að hlaupa af þeim sökum,“ sagði Sveinn við handbolta.is í dag. Hann vonast til að verða fljótur að jafna sig.