Viktor Gísli Hallgrímsson markvörður varð í gær að draga sig út úr íslenska landsliðinu í handknattleik sem mætir Grikkjum ytra á miðvikudaginn í undankeppni EM karla 2026. Björgvin Páll Gústavsson, hinn reyndi markvörður Vals, var í gærkvöld kallaður inn í landsliðið í stað Viktors Gísla.
Viktor Gísli meiddist á ökkla fyrir hálfum mánuði. Vonir stóðu til að hann gæti engu að síður tekið þátt í leikjunum við Grikki en nú er ljóst að hann þarf lengri tíma til þess að jafna sig. Viktor Gísli var til að mynda ekki með Wisla Plock þegar liðið átti leik í pólsku úrvalsdeildinni.
Björgvin Páll mun þar með standa vaktina í íslenska markinu í Grikklandi á miðvikudaginn ásamt nýliðanum Ísak Steinssyni markverði Drammen sem væntanlegur til móts við íslenska landsliðið í Grikklandi á morgun, mánudag.
Björgvin Páll, sem leikið hefur 281 landsleik og langreyndasti leikmaður landsliðsins, fór frá Íslandi í morgun ásamt liðstjórn, sjúkraþjálfurum, aðstoðarþjálfara og fararstjórn til London þaðan sem síðdegis verður flogið til Aþenu. Frá Aþenu til Chalkida er ríflega klukkustundar akstur. Komið verður á leiðarenda seint í kvöld. Leikmenn koma jafnt og þétt til Grikklands í dag og á morgun frá löndum víða í Evrópu en nokkur hópur leikmanna er að leika með félagsliðum sínum í dag.