- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vil einfaldlega prófa eitthvað nýtt

- Auglýsing -

0

„Ég vil einfaldlega prófa eitthvað nýtt,“ sagði Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfari í handknattleik þegar hann var spurður út val sitt á Sveini Jóhannssyni í landsliðshópinn fyrir viðureignirnar gegn Bosníu og Georgíu í fyrri hluta næsta mánaðar. Leikirnir verða þeir fyrstu í undankeppni Evrópumótsins sem haldið verður í upphafi árs 2026 í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.

Sveinn hefur ekki áður verið í landsliðshópnum eftir að Snorri Steinn tók við þjálfun landsiðsins um mitt síðasta ár. Reyndar eru nærri þrjú ár síðan Sveinn var síðast valinn í landsliðið. Hann tók þátt í undirbúningi fyrir EM í janúar 2022 en meiddist alvarlega á æfingu rétt fyrir mótið og var lengi frá keppni.

„Mér finnst þetta vera rétti tíminn gefa fleirum tækifæri. Ég hef verið með sömu þrjá línumennina í öllum mínum landsliðshópum fram til þessa. Ég er að leita eftir ákveðnum þáttum í línumanni sem ég hef trú á að Svenni geti fært okkur. Eina leiðin til þess að sjá það er að prófa hann á æfingum. Ég ætla engu að lofa þegar kemur að leikjunum,“ sagði Snorri Steinn ennfremur og bætti við að Sveinn hafi leikið vel með norska meistaraliðinu Kolstad í haust, jafnt í norsku úrvalsdeildinni og í Meistaradeild Evrópu.

Ennfremur sagðist Snorri hafa rætt við Arnar Freyr Arnarsson en Sveinn kemur inn í hópinn á hans kostnað.

Skiptir miklu máli

Fimm mánuðir eru liðnir síðan landsliðið kom síðast saman til æfinga og leikja. Síðustu verkefni voru leikir gegn Eistlandi í undankeppni HM í maí.

„Mikilvægi æfinganna og leikjanna framundan er mikið. Okkar markmið er ekki bara að komast á skrið í undankeppninni, við ætlum okkur að vinna riðilinn.

Það er einnig stuttur tími þangað til janúar rennur upp með undirbúningi og þátttöku okkar á heimsmeistaramótinu. Af þeirri ástæðu meðal annars vil ég að við nýtum vikuna sem við fáum saman vel,“ sagði Snorri Steinn sem hittir landsliðsmenn ekki aftur fyrr en um áramótin eftir að hann kveður þá að lokinni viðureigninni gegn Georgíu í Tiblisi 10. nóvember.

Fyrri leikurinn í undankeppni EM verður við Bosníu í Laugardalshöll miðvikudaginn 6. nóvember. Miðasala er þegar hafin á Tix.is.

Lengra viðtal við Snorra Stein er í myndskeiði efst í þessari frétt.

Hópinn sem Snorri Steinn valdi í gær er í fréttinni hér fyrir neðan.

Sjá einnig: Fékk smá gæshúð við að sjá þetta haft eftir honum

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -