„Það hefur verið stígandi í okkar leikjum um nokkurt skeið og þess vegna leggst leikurinn afar vel í mig,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir leikreyndasti leikmaður íslenska landsliðsins í handknattleik um þessar mundir. Hún leikur sinn 120. A-landsleik á morgun þegar íslenska landsliðið mætir Ungverjum í fyrri viðureigninni í umspili fyrir heimsmeistaramótið.
Viðureignin fer fram á Ásvöllum á morgun laugardag. Aðgangur er ókeypis í boði Icelandair. Flautað verður til leiks klukkan 16.
Landsliðið valið fyrir leikina mikilvægu við Ungverja
„Lið Ungverja er mjög gott en að sama skapi ungt. Ég hef sjálf verið ung og veit að þá getur stundum eitthvað brugðist hjá manni. Líkurnar eru minni eftir því sem reynslan verður meiri. Ég held að það séu möguleikar fyrir hendi,“ sagði Þórey Rósa sem bindur miklar vonir við að ná hagstæðum úrslitum í leiknum á morgun.
„Lykilatriðið er að ná góðum leik og hagstæðum úrslitum hér heima því það er alveg ljóst að viðureignin úti verður mjög erfið. Mín von er að ná að klára góðan leik og helst vinna hér heima. Miði er möguleiki.
Ég vil sjá okkur mæta til leiks með kassann úti og leggja allt í sölurnar,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir hornamaður Fram og íslenska landsliðsins full tilhlökkunar fyrir leikinn við Ungverja í undankeppni HM á Ásvöllum klukkan 16 á morgun.

Ungverska landsliðið kom til landsins í gær og æfði á Ásvöllum síðdegis og æfir á ný á sama stað í dag. Eins æfir íslenska landsliðið á Ásvöllum í dag en liðið hefur verið saman við æfingar á höfuðborgarsvæðinu síðan á mánduaginn.
Síðari viðureign Íslands og Ungverjalands fer fram í Érd, skammt frá Búdapest, á miðvikudaginn. Samanlagður sigurvegari beggja liða tryggir sér keppnisrétt á HM sem fram fer í desember í Danmörku, Noregi og Svíþjóð.
Ókeypis aðgangur er á leikinn klukkan 16 á Ásvöllum á laugardaginn í boði Icelandair. Það er tekið fram hér þótt auglýsingastofan sem vinnur fyrir Icelandair hafi ekki minnsta áhuga á að kaupa auglýsingu af handbolti.is né séð sér fært að láta svo lítið að svara óskum þar um.