- Auglýsing -
- Auglýsing -

Vilja kvitta fyrir þrjá tapleiki á síðasta tímabili

Árni Bragi Eyjólfsson, KA, kunni vel við á Seltjarnarnesi í dag. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Við erum gríðarlega spenntir fyrir að byrja. Standið á hópnum heilt yfir er mjög gott, en við erum samt að glíma við smá meiðsli hjá nokkrum leikmönnum,“ sagði Jónatan Þór Magnússon, þjálfari karlaliðs KA í handknattleik, sem loksins fær að taka þátt í kappleik í Olísdeildinni í kvöld eftir margra mánaða hlé af ástæðum sem flestum eru væntanlega kunnar.


KA-menn taka á móti eina taplausa liði Olísdeildarinnar, Aftureldingu, í KA-heimilinum klukkan 19.30 í kvöld. Leikið verður fyrir luktum dyrum en bein útsending frá viðureigninni verður á Stöð2sport.

KA vann einn leik í haust áður en gert var hlé á keppni í Olísdeildinni, gerði tvö jafntefli og tapaði einu sinni. Afturelding vann á hinn bóginn þrjár viðureignir og gerði einu sinni jafntefli.

Jónatan Þór sagði við handbolta.is fyrr í dag að hann væri spenntur að sjá hvernig lið sitt stæði um þessar mundir.

„Við erum spenntir að sjá hvar við stöndum gagnvart hinum liðunum. Þess utan er mjög mikil áskorun að spila við Aftureldingu. Við mættum Aftureldingu þrisvar sinnum í fyrra. Allt voru það hörkuleikir sem við töpuðum á endanum. Okkur finnst sem við verðum kvitta fyrir það,“ sagði Jónatan Þór Magnússon.

Þjálfarinn er í sóttkví

Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, verður ekki á hliðarlínunni í kvöld. Gunnar er í sóttkví eftir að hafa komið heim frá Egyptlandi síðdegis á þriðjudaginn. Gunnar er aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins. Hrannar Guðmundsson, aðstoðarþjálfari, verður ábyrgur fyrir Aftureldingarliðinu í kvöld. Gunnar losnar væntanlega úr sóttkví á sunnudagskvöld eða á mánudagsmorgun ef síðari skimun á sunnudag reynist gefa neikvæða niðurstöðu.

Eins og handbolti.is greindi frá á dögunum er Bergvin Þór Gíslason með brjósklos. Hann leikur þar af leiðandi ekki með Aftureldingu í kvöld. Gunnar þjálfari sagði í skilaboðum til handbolta.is í morgun að óvíst væri með öllu hvenær Bergvin er væntanlegur út á leikvöllinn aftur. Þess utan er Sveinn Andri Sveinsson að jafna sig eftir krossbandaaðgerð og Birkir Benediktsson á batavegi eftir hásinarslit í september.

Leikir kvöldsins:

Olísdeild karla:
Hertzhöllin: Grótta – ÍR, kl. 18 – sýndur á Stöð2sport
KA-heimilið: KA – Afturelding, kl. 19.30 – sýndur á Stöð2sport
Framhús: Fram – Valur, kl. 19.30

Olísdeild kvenna:
TM-höllin: Stjarnan – Haukar, kl. 19.30
Grill 66-deild kvenna:
Fylkishöll: Fjölnir-Fylkir – Víkingur, kl. 19.15

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -