„Ég get staðfest að við fengum bréf frá samtökum félagsliða í Þýskalandi þar sem spurt var um hvernig HSÍ hyggist tryggja sóttvarnir leikmanna hér á landi vegna þátttöku þeirra í landsleikjunum,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands í samtali við handbolti.is.
Eins og handbolti.is greindi frá í morgun íhuga þýsk félagslið að setja landsliðsmönnum sínum stólinn fyrir dyrnar þegar kemur að þátttöku í landsleikjum í undankeppni EM í næsta mánuði. Þetta á við um alla landsliðsmenn sem leika með þýskum félagsliðum, ekki eingöngu þá íslensku.
„Við svöruðum samtökunum en þau áskilja sér rétt til að svara okkur ekki til baka fyrr en í lok næsta næstu viku,“ sagði Róbert Geir ennfremur.
Verða í vinnustaðasóttkví
Eins og fram hefur komið á handbolti.is þá munu leikmenn og þjálfarar íslenska landsliðsins dvelja í svokallaðari vinnustaðasóttkví hér á landi dagana í kringum leikina við Litháen og Ísrael í undankeppni EM í næsta mánuði. Leikirnir fara fram 4. og 7. nóvember en stefnt er að því að æfingar landsliðsins hefjist 2. nóvember. Heilbrigðisráðuneytið hefur þegar veitt HSÍ undanþágu til æfinganna.
EHF vinnur í málinu
Róbert Geir segir ennfremur að Handknattleikssamband Evrópu, EHF, sé í samskiptum við Þjóðverjana enda beri félögunum að losa leikmenn möglunarlaust í landsliðsverkefni þegar um er að ræða kappleiki í undankeppni stórmóta eins og leikirnir í undankeppni EM2022 eru.
Níu leikmenn í 17 manna landsliðshópi sem valinn fyrir viku eru samningsbundnir þýskum félagsliðum. Það eru Arnar Freyr Arnarsson, Arnór Þór Gunnarsson, Bjarki Már Elísson, Gísli Þorgeir Kristjánsson, Janus Daði Smárason, Oddur Gretarsson, Ómar Ingi Magnússon, Viggó Kristjánsson, og Ýmir Örn Gíslason.
Auk þess er Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari, einnig þjálfari hjá þýska 1. deildarliðinu MT Melsungen, og Tomas Svensson, markvarðarþjálfari, er í þjálfarateymi SC Magdeburg.