„Fyrst og fremst einbeitum við okkur að okkur sjálfum og gera allt sem við mögulega getum til þess að eiga okkar besta leik. Við sjáum svo til hversu langt það fleytir okkur. Vissulega ætlum við okkur að vinna, við erum svo miklar keppnismanneskjur að annað kemur ekki til greina. Hinsvegar er ljóst að andstæðingurinn er afar sterkur og með betra lið en við um þessar mundir,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir sem verður fyrirliði íslenska landsliðsins í dag þegar það hefur undankeppni Evrópumótsins með því að sækja sænska landsliðið heim í Stiga Sport Arena í Eskilstuna í Svíþjóð. Flautað verður til leiks klukkan 17.
„Okkar markmið er fyrst og fremst að laða það besta fram í okkar leik. Undirbúningstíminn hefur ekki verið langur en vinnan hefur verið markviss, jafnt í vörn sem sókn og eins við að huga að okkur sjálfum,“ sagði Rut Arnfjörð sem leikur sinn 100. landsleik. Hún er reyndasti leikmaður landsliðsins um þessar mundir.
Viljum lengja góðu kaflana
„Við viljum lengja góðu kaflana og komast með sem bestar minningar frá viðureigninni. Draumurinn er vissulega að okkur takist að leika okkar allra besta leik. Við viljum ganga sáttar frá leiknum þegar upp verður staðið hver sem úrslitin verða,“ sagði Rut og minnti á að stundum hafi landsliðinu tekist vel upp gegn sterkum þjóðum en á tíðum gengið síður.
„Góðu kaflanir verða að verða fleiri og fá sem mest út úr leiknum. Við ætlum okkar að vera sáttar við okkur sjálfar þegar við komum inn á hótel eftir leikinn. Það skiptir miklu máli vegna þess líka að það er stutt í næsta leik í undankeppninni,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við handbolta.is í Eskilstuna.
Sem fyrr segir hefst leikur Svíþjóðar og Íslands klukkan 17. Auk útsendingar í sjónvarpi á vegum RÚV þá verður handbolti.is með textalýsingu frá leiknum beint úr Stiga Sports Arena einn íslenskra fjölmiðla.